Fara í efni

Into the Glacier hlýtur nýsköpunarverðlaun SAF 2015

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar.

IMG_5350

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar.

Fjölgun ferðafólks á Íslandi hefur verið mikil síðustu misserin og við þær aðstæður er sérstaklega mikilvægt að horfa á hvernig hægt er bjóða fjölbreyttari afþreyingu og nýjar ferðavörur. Mikilvægur þáttur er einnig dreifing ferðafólks víðar um landið og auknir möguleikar ferðaþjónustuaðila til að efla heilsársþjónustu og þar með auka framlegð greinarinnar.

Verðlaununum ætlað að hvetja frumkvöðla
Nýsköpunarverðlaunum SAF er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í tólfta sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samstakanna en þetta árið bárust 18 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin. Tilnefningarnar voru af ólíkum toga og því skemmtilegt verkefni sem dómnefnd þurfti að takast á við. Dómnefndina skipuðu María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og formaður dómnefndar Þóra Björk Þórhallsdóttir, félagsmaður í SAF og Kristín Sóley Björnsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Það verkefni sem hlýtur verðlaunin í ár er afar metnaðarfullt, einstakt á heimsvísu og mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á Vesturlandi sem og landinu öllu. Íshellirinn á Langjökli öðru nafni Into the Glacier er handhafi nýsköpunarverðlauna SAF árið 2015.

Mikil hvatning að hljóta nýsköpunarverðlaun SAF
Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into the Glacier, segir nýsköpunarverðlaun SAF vera mikla hvatningu fyrir starfsemi fyrirtækisins og eins fyrir starfsmenn fyrirtækisins til að halda áfram að byggja upp þetta spennandi fyrirtæki á einu áhugaverðasta svæði á Íslandi í dag – Vesturlandinu.

„Frá opnun ísganganna hefur gengið farið fram úr björtustu vonum og gestir verið virkilega ánægðir með upplifunina á Langjökli,“ segir Sigurður. „Into the Glacier hefur nú þegar tekið á móti 20.000 gestum og enn er mikil ásókn í ferðir. Til að koma á móts við kröfur ferðamanna og ferðaþjónustufyrirtækja er stefnt að því að hafa opið alla daga, allt árið um kring og fjölga jafnframt brottförum næsta sumar. Von er á nýjum jökla-trukki sem verður tekinn í notkun fyrir næsta sumar. Tilkoma nýja trukksins mun hjálpa fyrirtækinu að þjónusta fleiri hópa og auka enn frekar sætaframboð.“

Rökstuðningur dómnefndar

„Íshellirinn er eftirtektavert verkefni og dæmi um draum sem verður að veruleika. Það þarf dug, kjark og þor til að nýta jökul sem afþreyingarmöguleika í ferðaþjónustu. Í þessu verkefni fer saman hugsjón, áhugi, ástríða og kraftur frumkvöðla ásamt þekkingu vísindafólks, verkfræðinga, björgunarsveitafólks og fjármagn til að skapa einstaka upplifun og afþreyingarmöguleika sem á ekki sinn líka í heiminum. Íshellirinn hefur eflt framboð afþreyingar á Vesturlandi og gefið ferðafólki ærið tilefni til lengri dvalar á svæðinu.

Það er álit dómnefndar að tilvist Íshellisins/Into the Glacier sé hvatning til nýsköpunar og áframhaldandi vöruþróunar í ferðaþjónustu á landsvísu. Í þessum nýja afþreyingarmöguleika felast einnig mörg tækifæri í auknu samstarfi á milli ferðaþjónustuaðila í margskonar vöruþróun sem stuðlar að dreifingu ferðafólks um landsbyggðarnar og eflir heilsársþjónustu ferðaþjónustufyrirtækja. Nýverið var Vesturland kosið einn af áhugaverðustu áfangastöðum heims af Lonely Planet en nokkuð víst má telja að Íshellirinn er liður í þeirri viðurkenningu áfangastaðarins.

Ferðaþjónustan er í dag ein þeirra stoða sem gera okkur kleift að byggja landið og býr yfir miklum möguleikum í hinum dreifðari byggðum. Frumkvöðlar, hugmyndaauðgi þeirra og hugsjónir, eru ómissandi þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustunnar og því eru aðstandendur Íshellisins/Into the Glacier vel að nýsköpunarverðlaunum SAF 2015 komnir.“

Í tólfta skipti sem nýsköpunarverðlaun SAF eru afhent
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti nýsköpunarverðlaunin við hátíðlega og fjölmenna athöfn á afmælisdegi samtakanna í dag, en 17 ár eru liðin frá því Samtök ferðaþjónustunnar voru stofnuð. Þá flutti Grímur Sæmundsen, formaður SAF, ræðu ásamt því að Kristín Sóley Björnsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, gerði grein fyrir niðurstöðu sjóðsstjórnar

Þessi frétt er tekin af www.saf.is

IMG_5350