Búðahraun Snæfellsnesi
Búðahraun á Snæfellsnesi er úfið og sérkennilegt hraun sem rann úr gjallgígnum Búðakletti. Það er með fegurstu gróðursvæðum landsins og var helmingur þess friðlýstur árið 1977. Gullinn fjörusandur eins og nágrenni Búðahrauns er fátíður í íslenskri náttúru.
Frá fornu fari hefur gata legið í gegnum hraunið, neðanvert við Búðaklett. Nefndist hún Klettsgata og þótti erfið yfirferðar vegna þess hversu hraunið var holótt.
Undir Búðakletti er Búðahellir sem menn trúðu fyrrum að væri geysilangur. Segir ein sagan að hann sé tengdur við Surtshelli í Borgarfirði en önnur að hann liggi undir Faxaflóa og opnist suður á Reykjanesskaga og sé gullsandur í botni hans.