Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Bæir og þorp

holmurinn.png
Bæir og þorp

Þéttbýlisstaðirnir á Vesturlandi eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Alls eru 10 staðir með fleiri en 50 íbúa og er Akranes fjölmennasti þéttbýliskjarninn með rúmlega 6.600 íbúa. Flestir bæir liggja við sjávarsíðuna þar sem aðalatvinnuvegir hafa þróast í kringum sjósókn og útgerð. Aðrir staðir hafa byggst upp á þjónustu við landbúnaðinn svo sem Borgarnes og Búðardalur en Hvanneyri og Bifröst byggjast upp vegna öflugra skóla á stöðunum en það eru Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Háskólinn á Bifröst. Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær, ásamt Snæfellsjökulsþjóðgarði fengu Green Globe umhverfisvottun samfélaga árið 2008. Vottunin var endurnýjuð í júlí 2010 og heitir nú Earth Check. Svæðið var fyrsta samfélagið í Evrópu til þess að hljóta slíka vottun og það fjórða í heiminum. Öll stærri bæjarfélögin leggja æ ríkari áherslu á öfluga ferðaþjónustu þar sem fjölbreytt afþreying og þjónusta er í boði.

Búðardalur

Búðardalur er þjónustumiðstöð Dalanna og eru íbúar 255.

Á seinni árum er Búðardalur þekktur fyrir ostagerð en MS hefur verið með vinnslustöð þar í mörg ár.

Dalirnir eru sögufrægt hérað þar er meðal annars sögusvið Laxdælu og Sturlungu.

Eiríksstaðir í Haukadal eru 17 km frá Búðardal. Þar er hægt að kynnast víkingatímanum á lifandi hátt, leiðsögumenn klæðast víkingaklæðum og kynna fornt handverk um leið og þeir segja sögu staðarins.

Að Eiríksstöðum er einnig tilgátuhús byggt á rústum að öllum líkindum frá tíma Eiríks rauða og Þjóðhildar, foreldra Leifs heppna.

Frá Búðardal til Reykjavíkur eru 153 km.

Upplýsingamiðstöð, gistiheimili, tjaldsvæði, veitinga- og kaffihús.

Borgarnes

Borgarnes tengist Egilssögu órjúfanlegum böndum.

Höfuðpersóna Eglu kemur víða við í örnefnum bæjarins. Í skrúðgarðinum Skallagrímsgarði er minnismerki sem sýnir Egil flytja lík Böðvars sonar síns, sem drukknaði í Hvítárósum. Vestan við Borgarnes er Brákarey sem kennd er við Þorgerði brák ambátt á Borg sem ól Egil Skalla-Grímsson upp fyrstu árin.

Landnámssetur Íslands er í Borgarnesi skammt frá Brákarey og þar er hægt að kynnast Egilssögu og landnámssögunni í nútímaútfærslu.

Listaverkið Brák eftir Bjarna Þór Bjarnason er skammt frá Brákarsundi.

Bjössaróló er skemmtilegur heimatilbúinn leikvöllur þar sem börn af öllum aldri geti skemmt sér í fallegu umhverfi. Leikvöllurinn er við endann á Skúlagötu vestast í bænum.

Safnahúsið í Borgarnesi er með mjög áhugaverða og óvenjulega sýningu sem heitir Börn í 100 ár og sýningu með íslenskum fuglum.

Frá miðbæ Reykjavíkur til Borgarness eru 75 km.

Upplýsingamiðstöð, hótel, gistiheimili, farfuglaheimili, tjaldsvæði, kaffihús, söfn, setur, leikhús, sundlaug og 18 holu golfvöllur, Hamarsvöllur 3 km frá Borgarnesi.

Stykkishólmur

Stykkishólmur á sér yfir 400 ára sögu sem verslunarstaður og hafa mörg gömul hús verið gerð upp og eru mikil bæjarprýði.
Árið 1845 hóf Árni Thorlacius veðurathuganir þar og er þar elsta veðurathugunarstöð landsins. Fyrir utan lögreglustöðina er minnismerki um veðurathugunarstöðina og þar er hægt að fylgjast með veðurtölum dagsins.
Í Stykkishólmi má finna hótel, farfuglaheimili, heimagistingar, tjaldsvæði, fjölbreytt veitinga- og kaffihús, söfn, sundlaug með einstöku vatni, bátsferðir um fjörðinn og 9 holu golfvöll.
Frá Stykkishólmi til Reykjavíkur eru 172 km.

EDEN Stykkishólmur
Stykkishólmsbær var útnefndur EDEN-gæðaáfangastaður í Evrópu 2011 fyrir varðveislu og endurnýjun menningarminja og metnaðarfulla stefnu í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu.
Viðurkenninguna fær bæjarfélagið vegna markvissrar uppbyggingar gömlu húsanna í bænum sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og öðlast nýtt hlutverk í ferðaþjónustu, þar sem sjálfbærni- og umhverfishugsun er í forgrunni.

EDEN-gæðaáfangastaðir ,,European Destination of Excellence" er samevrópskt verkefni sem Ferðamálastofa heldur utan um fyrir Íslands hönd. Markmið þess er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.

Akranes

Akranes er stærsta bæjarfélagið á Vesturlandi þar sem búa rúmlega 7.400 manns.

Það tekur einungis um 45 mín að keyra frá Reykjavík upp á Akranes ef farið er um Hvalfjarðargöng. Daglegar strætisvagnaferðir eru á milli Reykjavíkur og Akraness.

Strandlengjan meðfram Akranesi er sérlega fjölbreytt og skemmtileg. Langisandur með sinn ljósa sand þar sem hægt er að byggja sandkastala af öllum stærðum og gerðum, njóta útsýnis eða baða sig í Guðlaugu, heitri náttúrulaug sem staðsett er í grjótgarðinum á Langasandi. Yst á Skaganum eru tveir vitar og útsýni þaðan mjög fagurt.

Á Breiðinni á Akranesi er að finna tvo fallega vita. Árið 1918 var byggður steinsteyptur viti yst á Syðriflös á Akranesi eftir teikningu Thorvalds Krabbe verkfræðings. Ljóshúsið var smíðað úr járnplötum úr Goðafossi sem strandaði undir Straumnesfjalli árið áður. Árin 1943 - 1944 var reistur nýr 19,2 metra hár viti eftir teikningu Axels Sveinssonar verkfræðings. Gaman er að fara upp í nýja vitann og er útsýnið úr honum einstakt. Haldnir hafa verið ýmsir viðburðir í nýja vitanum tónleikar og listasýningar.

Á Safnasvæðinu að Görðum er hægt að sjá fjölda báta, gömul hús með sál og ýmislegt sem minnir á gömlu tímana. 

Skógræktin og mjög góður 18 holu golfvöllur, Garðavöllur eru í næsta nágrenni við Safnasvæðið.

Gistiheimili, tjaldsvæði,veitinga- og kaffihús, söfn, gönguleiðir, sundlaug og 18 holu golfvöllur.

Bifröst

Bifröst er háskólaþorp þar sem búa um 200 manns.

Háskólinn á Bifröst á rætur að rekja til Samvinnuskólans sem var stofnaður árið 1918 í Reykjavík. Sumarið 1955 var skólinn fluttur að Bifröst.

Fram til 1990 var skólinn deild innan Sambands íslenskra samvinnufélaga og í eigu þess. Frá 1990 hefur skólinn verið sjálfseignarstofnun.

Skólinn hefur breyst mikið frá stofnun og hafa þær breytingar verið í takt við breyttar aðstæður og auknar menntunar­kröfur samfélagsins.

Margar náttúruperlur eru í næsta nágrenni staðarins.

Frá Bifröst til Reykjavíkur eru 107 km.

Veitingahús og 9 holu golfvöllur, Glanni er skammt frá.

Borgarfjörður

Borgarfjörður og Mýrar er svæði rómað fyrir náttúrufegurð. Fjölbreytni er mikil í náttúrunni og þar er auðvelt að upplifa fossa,fjöll, hraun og skóga, heita hveri og jökla. Fjölbreyttir útivistarmöguleikar. Sagan drýpur af hverju strái og fjölmörg söfn, setur og menningartengd þjónusta er á svæðinu.

Snæfellsnes

Snæfellsnes býður upp á fjölbreytt og töfrandi landslag.
Nesið er um 90 km langt prýtt háum og oft á tíðum hrikalegum fjallgarði, sem mótast hefur við eldgos og jökulrof. Yst á fjallgarðinum trónir hinn dulmagnaði Snæfellsjökull og umhverfis hann er yngsti þjóðgarður landsins, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Á Snæfellsnesi má finna ölkeldur, hvítar strendur, lífleg fuglabjörg, skemmtileg þorp og bæi. Brim og eyjar, einstakar gönguleiðir og fjölbreytt afþreying gerir ferð á Snæfellsnes sannarlega að ævintýri.

Vesturland

Þéttbýli
Þéttbýlisstaðirnir á Vesturlandi eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Alls eru 10 staðir með fleiri en 50 íbúa og er Akranes fjölmennasti þéttbýliskjarninn með rúmlega 6.600 íbúa.

Öll stærri bæjarfélögin leggja æ ríkari áherslu á öfluga ferðaþjónustu þar sem fjölbreytt afþreying og þjónusta er í boði. 

Bæir og þorp

Map Hellissandur, Rif Grundarfjörður Stykkishólmur Búðardalur Dalir Arnarstapi Hellnar Snæfellsnes Bifröst Húsafell Reykholt Borgarfjörður Hvanneyri Borgarnes Hvalfjörður Akranes Ólafsvík Bjarteyjarsandur