Glanni í Borgarfirði
Fossinn Glanni er í Norðurá í Borgarfirði, rétt fyrir neðan Bifröst, og segja sögur að hann sé dvalarstaður álfa og dverga. Skemmtileg gönguleið er frá þjónustuhúsi að útsýnispalli þar sem vel sést yfir fossinn og nágrenni hans. Gangan hentar öllum.
Veiðar eru stranglega bannaðar í fossinum.
Í annálum frá 14. öld er sagt að fossinn heiti Glennunarfoss, sem gæti verið tilkomið vegna lögunar hans. En orðið Glanni merkir hins vegar birta eða skin, enda glampa geislar sólarinnar skemmtilega á vatninu þegar skilyrði eru slík.