Heimabær hins stórkostlega Kirkjufells
Kirkjufell, bæjarfjall Grundarfjarðar, er eitt af þekktustu fjöllum Íslands ef ekki heimsins alls. Ekki er óalgengt að erlendir ljósmyndarar heimsæki Ísland í þeim tilgangi einum að mynda þetta einstaka fjall. Kirkjufell hefur meira að segja farið með hlutverk í stórum Hollywood myndum, nú síðast The Secret Life of Walter Mitty.
Þegar ferðamenn, og þeim fer fjölgandi, hafa sett lokið á linsuna við Kirkjufellið á komast þeir fljótt að því að Grundarfjörður hefur ekki einungis upp á stórkostlega fallegt fjall að bjóða. Umlukin stórkostlegri náttúru með fegurstu fossum landsins og stórkostlegu dýralífi kúrir bærinn sig við fjallsræturnar þar sem Helgrindur tróna við himinn. Ekki er óalgengt að sjá vinsæla gesti úr hafi líta við og sýna sig. Má þar helst nefna seli og háhyrninga. Á fallegum sumardögum geta gestir farið í siglingu, notið stórfenglegs útsýnis, rennt fyrir fiski, kíkt á lunda og aðra sjófugla. Ef hafið heillar ekki er hægt að fara í hringferð um Snæfellsnesið með rútu þar sem boðið er upp á leiðsögn.
Segja má að Grundarfjörður sé miðbær Snæfellsness, liggur mitt á milli Stykkishólms og Ólafsvíkur á norðanverðu Snæfellsnesi. Í bænum er mikið úrval af gististöðum, glæsilegt hótel, tvö hostel, heimagisting, sumarhús og svo auðvitað tjaldsvæði og sundlaug.
Sundlaugin er aðeins einn af áhugaverðum afþreyingarmöguleikum sem Grundarfjörður hefur upp á að bjóða. Einnig má nefna golfvöllinn, hestaleigur, kaffihús og veitingastaði. Í Sögumiðstöðinni er rekin upplýsingamiðstöð ferðamanna. Rekin er glæsileg matvöruverslun á staðnum ásamt áfengisverslun og apóteki.
Þrátt fyrir að flestir ferðamenn komi landleiðina þá koma þúsundir á hverju ári með skemmtiferðaskipum sem leggja að Grundarfjarðarhöfn. Grundarfjarðarhöfn leggur sig fram við að taka vel á móti skemmtiferðaskipum og gera dvölina sem eftirminnilegasta fyrir farþega þeirra. Fjöldi skipa hefur aukist mikið síðustu ár, frá tveimur skipum árið 2001 í nítján skip sumarið 2014.
Á sumrin lifnar virkilega yfir bænum. Víkingafélagið Glæsir hefur komið sér upp skemmtilegri aðstöðu í miðjum bænum og eru viðburðir víkinganna oftar en ekki hápunktur dagsins að mati gesta skemmtiferðaskipanna.
Á bæjarhátíðinni, Á góðri stund, sem haldin er síðustu helgina í júlí ár hvert, skrýðist bærinn hverfalitunum sem eru rauður, blár, gulur og grænn. Hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð þar sem gestir á öllum aldri ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Grundarfjörður tekur vel á móti ykkur í sumar. Verið velkomin.