Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Gestastofa Snæfellsness opnaði á Breiðabliki laugardaginn 22. júní

Gestastofa Snæfellsness opnaði með glæsilegri opnunarhátíð á Breiðabliki síðastliðinn laugardag.
Frá opnunarhátíð Gestastofu Snæfellsness
Frá opnunarhátíð Gestastofu Snæfellsness

Laugardagurinn 22. júní var stór dagur fyrir íbúa og sveitarfélög á Snæfellsnesi. Í félagsheimilinu Breiðabliki í Eyja- og Miklaholtshreppi var formlega opnuð ný gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Gestastofan er á vegum Svæðisgarðsins Snæfellsness og þannig sameinast sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og atvinnulífið um rekstur hennar. Gestastofan Breiðabliki er hugsuð sem gátt ferðafólks inn á svæðið, bæði sem áningarstaður og þar getur ferðafólk nálgast allar helstu upplýsingar um ferðir á svæðið. Í Breiðabliki er hreinlætisaðstaða opin allan sólarhringinn og auk þess er bensínsjálfsali á hlaðinu sem og veitingavagn. Á daginn verður upplýsingamiðstöð opin og ráðgert að þar verði auk þess markaður.

Töluvert hefur verið lagt í endurbætur á félagsheimilinu sem er í eigu Eyja- og Miklaholtshrepps. Að sögn Eggerts Kjartanssonar oddvita fékkst frá Byggðastofnun 25 milljóna króna styrkur út á skilgreininguna brothættar byggðir, sem sunnanvert Snæfellsnes fellur undir, og var þessi ríkisstyrkur lagður í endurbætur á húsinu. Auk starfsemi gestastofu verður Svæðisgarðurinn Snæfellsnes með fundaaðstöðu í húsinu auk þess sem hreppsskrifstofa Eyja- og Miklaholtshrepps verður þar. Áfram mun Breiðablik engu að síður þjóna íbúum sem félagsheimili sveitarinnar.

Fengið af vef Skessuhorns. 

Frá opnun Gestastofu Snæfellsness