Ein fegursta náttúruperla landsins. Ótal fossar spretta úr jaðri Hallmundarhrauns og falla í Hvítá. Hraunfossar, Barnafoss og næsta nágrenni voru friðlýst 1987. Bílastæði eru við Hraunfossa og þaðan er örstutt gönguleið að útsýnispalli þaðan sem fossarnir sjást vel. Einnig er brú yfir ánna þar sem ganga má yfir í hraunið. Veitingastaður og minjagripaverslun er skömmu frá bílastæðinu.
Kirkjufell
Kirkjufell er mest myndaða fjall Íslands og þykir vinsælt að ná mynd af fjallinu með Kirkjufellsfossinn í forgrunni. Fjallið er 463 m og myndast vel frá þéttbýlinu og frá ströndinni og sjónum allt í kringum fjörðinn.
Snæfellsjökulsþjóðgarður
Heillandi náttúra og merkar sögulegar minjar urðu til þess að Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 28. júní 2001. Markmiðið er að auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því. Hann er fyrsti þjóðgarður á Íslandi sem nær í sjó fram. Sérstaða þjóðgarðsins felst í nálægðinni við sjóinn og samspili mannlífs og náttúru. Þjóðgarðar eru þjóðareign og er öllum frjálst að fara um þá, samkvæmt þeim reglum sem um þá gilda.
Þjóðgarðsvörður sér um daglegan rekstur þjóðgarðsins í umboði Umhverfisstofnunar. Yfir sumarmánuðina starfa þar landverðir við fræðslu, upplýsingagjöf, eftirlit og umhirðu. Skipulagðar gönguferðir eru nokkrum sinnum í viku. Gestir eru hvattir til að leita upplýsinga og fræðslu hjá starfsfólki þjóðgarðsins.
Deildartunguhver
Deildartunguhver er vatnsmesti hver Evrópu en hann er einnig líkt og Kleppjárnsreykjahver samheiti á nokkrum hverum sem í heildina ná yfir um 50 m svæði. Úr hverunum koma 180 l af u.þ.b. 100° heitu vatni á sekúndu og er mesta uppstreymið undan 5 m háum leirbakka sem nefndur er ýmist Hverahóll eða Laugarhóll. Hverinn er nálægt bænum Deildartungu og dregur nafn af honum. Hann er friðaður. Vatni úr hvernum er dælt til Borgarness og Akraness.
Snæfellsjökull
Snæfellsjökull á Snæfellsnesi með frægustu jöklum á Íslandi og hefur oft verið kallaður konungur íslenskra fjalla. Hann er í röð formfegurstu jökla á Íslandi,1446 m hár og sést víða að. Margir njóta fegurðar hans í fallegu sólsetri.
Lóndrangar
Lóndrangar á Snæfellsnesi eru tveir klettadrangar sem rísa stakir út við ströndina, rétt fyrir fyrir vestan Hellna. Þeir eru óvenju formfagrir, fornir gígtappar og verpti örn fyrrum í hærri draganum.
Á Snæfellsnesi bíður veisla fyrir matgæðinga, paradís fyrir útivistarmenn, nægur efniviður fyrir ljósmyndara og fjölbreytt afþreying. Segja má að Snæfellsnes sé Ísland í hnotskurn, en það er þekkt fyrir fjölbreytta fegurð og dramatískt landslag.
Borgarfjörður er svæði rómað fyrir náttúrufegurð. Fjölbreytni er mikil í náttúrunni og þar er auðvelt að upplifa fossa, fjöll, hraun og skóga, heita hveri og jökla. Fjölbreyttir útivistarmöguleikar eru á svæðinu og sagan drýpur þar af hverju strái. Fjölmörg söfn, setur og menningartengd þjónusta er á svæðinu, fjölbreyttir afþreyingamöguleikar, eitthvað við allra hæfi í mat og drykk og gististaðir af öllu tagi.
Leiðin er um 950 km með einstökum áningarstöðum og upplifunum. Vestfjarðaleiðin er stutt frá Reykjavík og Akureyri og er því aðgengilegur og áhugaverður valkostur sem ferðaleið þar sem auðvelt er að kanna króka og kima svæðisins og upplifa óspillta náttúru og víðerni sem sífellt verður erfiðara að finna.
Hvalfjörður er eitt af þeim leyndu perlum Íslands sem býður ferðafólki upp á stórbrotna náttúru, ríka sögu og kyrrð langt frá annasamri umferð Hringvegarins. Fjörðurinn er um 30 kílómetra langur og nær allt að 84 metra dýpi, umlukinn tignarlegum fjöllum, gróskumiklum dölum og fossum sem falla niður kletta eins og úr huldum heimi.
Að velja gömlu leiðina um Hvalfjörð í stað þess að fara í gegnum jarðgöngin er sannarlega þess virði. Leiðin býður upp á óteljandi útsýnisstaði, fuglalíf með ströndinni og ekki síst hið magnaða ævintýri að ganga að Glym, hæsta fossi Íslands, sem fellur niður djúpan og gróinn gljúfur.
Akranes, sem stendur við vestanverðan Hvalfjörð, er heillandi sjávarbær sem hentar vel sem upphafs- eða endapunktur ferðarinnar. Þar má finna hlýlegt andrúmsloft, tvo fallega vita með stórkostlegu útsýni yfir Faxaflóa, og sterka tengingu við íslenska sjávarmenningu. Bærinn hefur auk þess vaxandi menningarlíf og liggur vel við bæði höfuðborgarsvæðinu og Hvalfirði.