Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Styrkleikar áfangastaðarins Vesturlands liggja í náttúruperlum þess. Það má nefna t.d. Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, Víðgelmi sem er stærsti hraunhellir Íslands, Deildartunguhver sem er vatnsmesti hver Evrópu,  Glym sem er hæsti aðgengilegi fossinn á landinu og Hraunfossar sem er falleg fossabreiða sem flæðir úr Hallmundarhrauni ofan í Hvítá. Vesturland státar einnig af jöklunum Langjökli, Snæfellsjökli, Eiríksjökli sem er jafnframt hæsta fjall Vesturlands og Okinu sem er fyrsti jökullinn á Íslandi til að bráðna. 

Hraunfossar í Borgarfirði
Hraunfossar í Borgarfirði eru sérstakt náttúruvætti og þykja með fegurstu náttúruperlum landsins. Þar streymir lindárvatn hvítfyssandi undan Hallmundarhrauni og niður í Hvítá. Staður sem vart á sinn líka. Umhverfið var friðlýst árið 1987. Annað nafn á fossunum eru Girðingar.  Bílastæði eru við Hraunfossa, upplýsingaskilti ásamt merktum göngustígum, veitingasölu og salernum.  
Vatnshellir á Snæfellsnesi
Vatnshellir á Snæfellsnesi er sérkennilegur hraunhellir í suðurhlíðum Purkhólahrauns og er talinn vera um 5-8000 ára gamall. Hellirinn er um 200 m langur og þar er hátt til lofts og vítt til veggja.  Vatnshellir hefur verið gerður aðgengilegur með hringstiga en umferð um hann er aðeins leyfð með leiðsögn. Nánari upplýsingar eru veittar á vefsíðu Summit Adventure Guides .
Grábrók í Borgarfirði
Hraunið sem rann úr gígunum er úfið apalhraun, 2-3 þúsund ára gamalt og víða vaxið gróðri. Það þekur allstórt svæði í Norðurárdal og stíflaði Norðurá á sínum tíma fyrir ofan Laxfoss. Það var friðlýst árið 1962.  
Guðrúnarlaug í Dölum
Guðrúnarlaug í Dölum er hlaðin laug um 20 kílómetra frá Búðardal, staðsett að Laugum í Sælingsdal. Hún er opin allt árið og er frítt í hana.   Í Laxdælu er sagt frá því að Guðrún Ósvífursdóttir hafi löngum dvalið við laug á sama stað. Í Sturlungu er einnig getið um baðlaugina og svo virðist sem hún hafa verið mikið notuð.   Talið er að upphaflega laugin hafi eyðilagst í skriðuhlaupi en árið 2009 var hlaðin ný laug í nágrenni þess þar sem sú eldri er talin hafa verið og nefnist hún Guðrúnarlaug. Þá var einnig hlaðið blygðunarhús þar sem hafa má fataskipti.  
Skorradalur í Borgarfirði
Skorradalur er syðstur Borgarfjarðardala, skógivaxinn og að mestu hulinn með Skorradalsvatni. Dalurinn er tilvalinn til útivistar. Lítið er þar um hefðbundinn búskap í dag en sumarbústöðum fer fjölgandi og skóglendi stækkar ár frá ári.   Sunnan að dalnum liggur Skarðsheiði yst en Dragafell og Botnsheiði innar. Dalurinn er 25 km. langur, hlykkjóttur og frekar þröngur nema rétt neðst. Víðáttumiklir skógar eru í dalnum en miklu samfelldari að norðanverðu. Innan til er dalurinn þröngur og þykir einkar fagur.   Fitjar eru innst í dalnum þar var kirkjustaður. Á Stálpastöðum, sem er í norðanverum dalnumm, er töluverður skógur og þar sem finna má fallegar gönguleiðir. Tjaldsvæðið í Selsskógi er gróður- og skjólsælt tjaldsvæði rétt við Skorradalsvatn.  Jarðhiti er aðeins á einni jörð, Efri Hrepp og er þar sundlaug, Hreppslaug.  
Saxhóll á Snæfellsnesi
Saxhóll á Snæfellsnesi er 40 metra hár, formfagur gígur innan marka Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Gígurinn hefur verið vinsæll til uppgöngu enda staðsettur nálægt veginum og aðgengi að honum gott. Tröppur hafa verið lagðar upp á toppinn þannig að auðvelt er að ganga upp og njóti útsýnisins. Bílastæði eru við gíginn.   Skemmdir voru unnar á hólnum fyrr á tíð er efni var tekið úr honum til ofaníburðar.   Hólarnir eru í raun tveir, Stóri-Saxhóll og Litli-Saxhóll. Þriðji hóllinn er úti í hrauninu suðvestur af bæjarrústunum og heitir hann Sauðhóll. Voru þar beitarhús og er hellir austan í hólnum. Saxhóll var bær sem farinn er í eyði fyrir löngu. Þar var kirkja nær allan tíma forns siðar í landinu. Tröppustígurin upp í gíginn var tilnefndur til fernra verðlauna 2017-2018; Menningarverðlaun DV, Nordic Architecture Fair Award, Hönnunarverðlauna Íslands og Rosa Barba International Landscape Prize í Barcelona en þau verðlaun hlaut hann í september 2018.  
Daníelslundur í Borgarfirði
Daníelslundur í Borgarfirði er skógarlundur rétt fyrir neðan bæinn Svignaskarð. Staðurinn er tilvalinn áningarstaður til útivistar fyrir alla aldurshópa og er í alfaraleið, við þjóðveg nr. 1.   Í skóginum eru góðir göngustígar, rjóður með bekkjum og borðum ásamt grilli. Mikilvægt er að göngustígum sé fylgt, viðkvæmum gróðri sé hlíft og að gestir hirði rusl eftir sig.   Efst í lundinum er gott útsýni. Ekið er inn á bílastæði af þjóðveginum.  
Snæfellsjökull á Snæfellsnesi
Snæfellsjökull á Snæfellsnesi með frægustu jöklum á Íslandi og hefur oft verið kallaður konungur íslenskra fjalla. Hann er í röð formfegurstu jökla á Íslandi,1446 m hár og sést víða að. Margir njóta fegurðar hans í fallegu sólsetri.   Snæfellsjökull er gamalt eldfjall sem hið efra er mjög reglulega löguð eldkeila. Gígskálin á toppi jökulsins er um 200 metra djúp, girt íshörmum. Á barmi skálarinnar rísa þrír tindar, eða þúfur, Jökulþúfur. Er miðþúfan hæsti tindur jökulsins.   Sumir finna sterk áhrif frá jöklinum og telja að hann sé ein af sjö stærstu orkustöðvum jarðar. Löngum hefur dulúð því sveipað jökulinn og umhverfi hans. Þeir sem hyggja á ferðir á Snæfellsjökul skulu kynna sér vel aðstæður og ástand jökulsins. Akstur vélknúinna ökutækja á jökli er háður leyfi þjóðgarðsvarðar. Óvönu fólki er bent á að ganga á Snæfellsjökul með leiðsögumanni en nokkur fyrirtæki bjóða uppá ferðir á jökulinn. Svæðið um vestanvert Snæfellsnes er löngum kallað "undir jökli".
Lóndrangar á Snæfellsnesi
Lóndrangar á Snæfellsnesi eru tveir klettadrangar sem rísa stakir út við ströndina, rétt fyrir fyrir vestan Hellna. Þeir eru óvenju formfagrir, fornir gígtappar og verpti örn fyrrum í hærri draganum.   Stikuð gönguleið er frá Malarrifi að Lóndröngum. Stígurinn er fær öllu göngufæru fólki, en á kafla, næst dröngunum, er gengið í fjörugrjóti. Lengi vel voru Lóndrangar taldir ókleifir með öllu, en 1735 var hærri drangurinn klifinn í fyrsta sinn svo vitað sé. Munnmæli eru um að sakamaður hafi eitt sinn komist upp í minni dranginn og bjargað þannig lífi sínu og komist á erlent skip.   Áður fyrr var útræði hjá Lóndröngum og sagt er að 12 skip hafi verið gerð þaðan út þegar mest var. Lendingin var fyrir austan hærri dranginn og heitir þar Drangsvogur. Til skamms tíma sáust við drangana rústir af sjóbúðum. Fiskigarðar og fiskreitir sjást þar í hrauninu fyrir ofan. Aðstaða til útgerðar hefur verið mjög erfið, fyrir opnu hafi. 
Búðakirkja á Snæfellsnesi
Búðakirkja á Snæfellsnesi er lítil svört timburkirkja sem heillar marga og fólk kemur víða að úr heiminum til að innsigla þar ást sína.
Klofningur í Dölum
Af Klofningi í Dölum er einstaklega fagurt útsýni meðal annars yfir eyjarnar á Breiðafirði og yfir á Snæfellsnes. Uppi á klettinum við þjóðveginn er hringsjá þar sem hægt er að átta sig á nánasta umhverfi.   Klofningur í Dölum, er fremsti hluti fjallgarðs sem nefnist Klofningsfjall og skiptir Breiðafirði í tvo hluta. Fremst á Klofningi mætast Fellsströnd og Skarðsströnd og liggur akvegurinn um skarð, Klofningsskarð. Landeyjarnes liggur þar fyrirneðan. Á þessu svæði má oft sjá haferni.   Fyrrum var Klofningshreppur sér sveitarfélag, sem varð til árið 1918 við skiptingu Skarðsstrandarhrepps í Klofningshrepp og Skarðshrepp. Árið 1986 var Klofningshreppi síðan skipt á milli nágrannahreppana Skarðs- og Fellsstrandarhrepps.  
Arnarstapi
Arnarstapi á Snæfellsnesi er vinsæll ferðamannastaður fyrir alla fjölskylduna. Þar eru góðar gönguleiðir, hótel, tjaldsvæði, gistihús og veitingastaðir. Frá Arnarstapa er einnig boðið upp á ferðir á Snæfellsjökul. Stapafell er þar fyrir ofan. Arnarstapi er úr alfaraleið og mikilvægt er að hafa samband við þjónustuaðila ef koma á með hópa inn á svæðið sem nýta sér þjónustuna sem þar er í boði. Ströndin við Arnarstapa er ákaflega fögur og sérkennileg, einkennilega mótuð af briminu. Gönguleiðin milli Arnarstapa og Hellna er einstaklega skemmtileg og að hluta til gömul reiðgata. Hún er við allra hæfi og er ströndin er friðlýst.   Arnarstapi var áður fyrr kaupstaður, sjávarpláss með miklu útræði og lendingin var talin ein sú besta undir Jökli.   Smábátahöfnin var endurbætt árið 2002 og er í dag eina höfnin á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þangað koma menn af ýmsum stöðum á landinu og gera út dagróðrabáta yfir sumartímann.   Arnarstapa er getið í Bárðar-sögu Snæfellsáss og þar er steinlistaverkið Bárður Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson myndhöggvara sem setur mikinn svip á svæðið.       
Snæfellsjökulsþjóðgarður
Yst á Snæfellsnesi trónir hinn dularfulli Snæfellsjökull og þar var Snæfellsjökulsþjóðgarður stofnaður 28. júní árið 2001. Hlutverk þjóðgarðsins er að vernda náttúru og landslag, vistkerfi, dýralíf sem og menningararf svæðisins.  Þjóðgarðurinn er 18km2 að stærð og fyrsti þjóðgarður landsins sem nær að sjó og hefur þá sérstöðu að geyma minjar frá útræði fyrri alda. Landslagið á Snæfellsnesi er magnþrungið og margbreytilegt. Ströndin er fjölbreytt þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar með iðandi fuglalífi um varptímann.  Láglendið innan þjóðgarðsins er að mestu hraun sem runnið hefur frá Snæfellsjökli eða eldvörpum á láglendi og er víðast þakið mosa en inn á milli má finna fallega, skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri. Láglendið á sunnanverðu Snæfellsnesi er forn sjávarbotn sem risið hefur frá því ísöld lauk. Hamrabeltin upp af láglendinu eru því gamlir sjávarhamrar.  Snæfellsjökull gnæfir tignarlegur yfir umhverfinu og undirfjöll hans eru margbreytileg að lögun. Ofar í landinu og nær Jökulhálsi eru vikurflákar og land sem er nýlega komið undan jökli.  Almenningi er heimil för um þjóðgarðinn en ganga skal snyrtilega um svæðið og fylgja öllum umgengnisreglum sem gilda eins og hirða rusl og fylgja merktum leiðum og skipulögðum stígum. Umferð reiðhjóla er aðeins heimil á skilgreindum hjólastígum og vegum og lausaganga hrossa og hunda er ekki heimil. Einnig er óheimilt að kveikja eld á víðavangi þar sem hætta getur stafað af, hvort sem um er að ræða gróður, dýralíf eða mannvirki.  Gestastofa Snæfellsjökulsþjóðgarðs er annars vegar á Malarrifi, sunnanmegin í þjóðgarðinum og hins vegar er, norðanmegin við þjóðgarðinn, Þjóðgarðsmiðstöðin á Hellissandi. Á gestastofunum eru starfandi landverðir sem veita upplýsingar og aðstoð og eru salernin þar opin allt árið.  Smelltu hér til að sjá opnunartíma gestastofanna   
Víðgelmir í Borgarfirði
Víðgelmir í Borgarfirði er stærstur allra hella á Íslandi og talinn einn stærsti hraunhellir í heimi.   Hellirinn hefur að geyma kynjaveröld, litríkar hvelfingar, fallegar ísmyndanir, dropasteina og hraunstrá. Árið 1993 fundust mannvistarleifar í hellinum. Þær eru nú til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands.   Víðgelmir hefur verið friðaður síðan 1993 og er innganga og skoðun eingöngu leyfð með leiðsögn en aðgengi að hellinum hefur verið stórbætt m.a. með gerð göngupalla. Leiðsögumenn frá "The Cave" bjóða upp á stuttar og langar ferðir í hellinn. Á heimasíðu ferðaþjónustunnar The Cave er hægt að bóka ferðir og fá frekari upplýsingar.  
Flatey á Breiðafirði
Flatey á Breiðafirði er stærst vestureyja og hefur alltaf verið þeirra fjölmennust. Í eyjunni er hótel og veitingastaður, mikilnáttúrufegurð og friðsæld. Hafa margir haft á orði að þar sé eins og tíminn standi þar í stað.   Höfnin var skeifulaga, sjálfgerð frá náttúrunnar hendi og veitti var í flestum vindáttum og gengur ferja frá Sæferðum út í eyjuna frá Stykkishólmi.  Í Flatey er kauptún og fjöldi húsa í eyjunni sem eigendur hafa verið að gera upp. Þar var lengi verslun en árið 1777 varð þar löggildur verslunarstaður og ætíð öflugt athafnalíf.   Kirkja er í eyjunni, en einnig var þar prestssetur, hraðfrystihús, læknissetur, landsímastöð og póstafgreiðsla. Kirkjan í Flatey er sérstök að því leyti að innan dyra er hún eins og stórt listaverk sem er verk Baltasar listmálara.   Klaustur var reist í Flatey árið 1172 sem síðar var flutt að Helgafelli á Snæfellsnesi. Heita Klausturhólar þar sem klaustrið stóð og enn sér þar á stóran stein sem á að hafa staðið fyrir utan aðaldyr klaustursins.    
Kirkjufell á Snæfellsnesi
Kirkjufell við Grundarfjörð á Snæfellsnesi er 463m og eitt af sérkennilegustu og fegurstu fjöllum á svæðinu. Sagan segir að það sé mest myndaða fjall landsins og hefur prýtt lista yfir 10 fallegust fjöll heims.   Jarðlögin í Kirkjufelli þykja einstök og innihalda mikilvægar upplýsingar um jarðfræði á norðanverðu Snæfellsnesi á jökultíma og má sjá mynd af þeim á upplýsingaskilti við þjóðveginn.   Hægt er að ganga í kringum fjallið, sem er slitið frá meginfjallgarðinum og tekur það um þrjá klukkutíma. Gengt er á fjallið fyrir góða fjallgöngumenn með staðkunnugum leiðsögumanni en gönguleiðin er ekki stikuð. Ferðafólk er alfarið á eigin ábyrgð hyggist það til uppgöngu en vakin skal athygli á því að gangan er mjög hættuleg og þar hafa bæði orðið mjög alvarleg slys á fólki sem og banaslys. Bannað er að ganga á fjallið frá 1. nóvember - 15. júní vegna sérstaklega hættulegra aðstæðna.
Langjökull í Borgarfirði
Langjökull í Borgarfirði er annar stærsti jökull landsins, 950 km2 Aðgengi er með því besta sem gerist. Boðið er upp á ýmsar ferðir á jökulinn, snjósleðaferðir og ferðir í ísgöng, þau stærstu sinnar tegurndar í heiminum. Á góðum degi er útsýnið af jöklinum óviðjafnanlegt.  Hæsta bunga jökulsins er 1355m en mestur hluti hans er í 12-1300 m.y.s. Ýmis fell og fjöll eru í jökulröndinni og einnig ganga allmargir skriðjöklar út frá honum. Umhverfis Langjökul eru smájöklarnir Eiríksjökull, Þórisjökull, Hrútafell og Ok sem reyndar hefur tapað titlinum jökull.   Allt heitt vatn suður í Brúará, Þingvallavatni, suðvestur á Reykjanesfjallgarði, á Arnarvatnsheiði og jarðhitasvæðin í Borgarfirði, Reykjavík og nágrenni og á Geysissvæðinu er frá jöklinum komið.   Langjökull tilheyrir vestara gosbelti, því sama og Reykjanesskaginn og Hengilskerfið. Hann hefur ekki verið mikilvirkur sem eldfjall á nútíma, ef undan eru skilin nokkur stór dyngjugos og er Skjalbreiður þeirra langstærst. Mesta hraunið hefur þó runnið eftir landnám, Hallmundarhraun, sem rann árið 900 frá eldvörpum við norðvesturbrún Langjökuls.   Jarðskjálftavirkni hefur verið nokkuð mikil við jökulinn sem bendir til þess að þar séu lifandi eldstöðvar sem þó eru ekki taldar hættulegar.  
Djúpalónssandur á Snæfellsnesi
Djúpalónssandur á Snæfellsnesi er skemmtileg, bogamynduð malarvík með ýmsum furðulegum klettamyndunum. Þarna er einstaklega kraftmikill staður þar sem hraunið mætir úthafinu þar sem hægt er að fá orku, innblástur og útrás en líka kyrrð og frið.   Á árum áður var útgerð og verbúðarlíf á Djúpalónssandi og þótti mönnum þar reimt. Frá þeim tíma eru fjórir aflraunasteinar sem liggja undir kletti þegar komið er niður undir sandströndina. Þeir heita Fullsterkur 154 kg, Hálfsterkur 100 kg, Hálfdrættingur 54 kg, Amlóði 23 kg. Vinsælt er að reyna krafta sína á steinunum sem liggja undir Gatkletti.   Bannað er að vaða og synda í sjónum við Djúpalónssand en mikið dýpi og sterkir straumar gera slíkt lífshættulegt.   Frá Djúpalónssandi er um 1 km löng gönguleið yfir í Dritvík þar sem var mikil útgerð fyrrum. Dritvíkingar urðu að sækja allt vatn yfir á Djúpalónssand. Vatnsstígur þeirra lá yfir nesið Suðurbarða eða Víkurbarða.   Bílastæði og salerni eru á staðnum.  
Langisandur á Akranesi
Langisandur á Akranesi er að margra mati, ein besta bað- og sandströnd landsins og er hún staðsett er neðan við íþróttamannvirki við Jaðarsbakka. Langisandur hefur löngum verið notaður sem útivistarsvæði og fara gestir og heimamenn þar í gönguferðir allan ársins hring og til margra ára var sandurinn æfingasvæði knattspyrnumanna. Á tímabili var sandurinn notaður sem flugvöllur. Þeim fjölgar sífellt sem skella sér í sjósund reglulega og nýta sér þá aðstöðu sem búið er að koma upp við Langasand. Ofan við ströndina hefur verið komið upp skjólsælum palli. Þar er lítið þjónustuhús þar sem hægt er að fá keyptar veitingar. Langisandur er bláfánaströnd en það er umhverfisvottun sem veitt er smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjávarferðamennsku fyrir árangursríkt starf að umhverfismálum
Krosshólaborg í Dölum
Krosshólaborg í Dölum er rétt við veginn sem liggur vestur á Fellsströnd. Af borginni er gott útsýni.   Sagt er að landnámskonan Auður djúpúðga, sem nam land í Dölum, hafi farið þangað til bænahalds og var um það leyti mikil átrúnaður á klettaborginni, þar sem talið er að Auður hafi látið reisa krossa, enda kristin. Skammt þar frá eru Auðartóttir.   Kvenfélagskonur í Dölum reistu minnisvarða, steinkross um Auði djúpúðgu árið 1965 og sumarið 2008 var sett upp söguskilti á staðnum. Bílastæði eru við Krosshólaborg og einungis stuttur spölur þaðan upp á borgina sjálfa. 
Glymur í Hvalfirði
ATHUGIÐ - Gönguleiðin getur verið mjög hættuleg yfirferðar yfir vetrarmánuðina og ekki ráðlegt að ganga hana nema með viðeigandi búnað og mikla reynslu í farteskinu! Fossinn Glymur er í Botnsdal, í Hvalfjarðarsveit. Hann kemur úr Botnsá og er hæsti aðgengilegi foss landsins en fallhæð hans er 198 metrar. Rennur áin síðan í hrikalegu gljúfri niður undir dalbotn og út í Botnsvog.   Gönguferð að fossinum Glym getur tekið á bilinu 3-4 klukkustundir. Bílastæði er inni í dalnum og liggur greinilegur stígur upp að fossinum. Hann sést betur frá suðurbrún gilsins og þá leið fara margir. Gönguleiðin hefur verið merkt með gulmáluðum steinum með vissu millibili.   Ganga upp að fossinum er fyrir fólk sem er í þokkalegu formi, því bæði er brött brekka á gönguleiðinni ásamt lausum skriðum.  Á vorin og fram eftir sumri er í gilinu er mikið varp fýls. Áin sjálf kemur úr Hvalvatni einu dýpsta vatni landsins sem liggur ofan við fjallið Hvalfell.          
Deildartunguhver
Deildartunguhver í Borgarfirði er vatnsmesti hver í Evrópu. Hitastig vatnsins er 100° og úr hvernum koma um 180lítrar af heitu vatni á sekúndu.   Frá Deildartunguhver, sem er friðaður, liggur ein lengsta jarðahitavatnslögn í heimi um 64 kílómetra leið til Akranes. Hitaveita var stofnuð árið 1979 um notkun á vatninu sem hitar upp hús frá Borgarfirði að Akranesi.   Hverinn er hluti af langstærsta jarðhitakerfi Borgarfjarðar, sem kennt er við Reykholtsdal, sem er það öflugasta á Íslandi, ef litið er til náttúrlegs yfirborðsjarðhita, og kemur nær helmingur þess vatnsrennslis er úr hvernum.   Afbrigði af burknanum Skollakambi, vex við hverinn. Hefur hann fengið heitið Tunguskollakambur því talið er að þetta afbrigði sé hvergi annars staðar að finna og eigi ekki sinn líka í veröldinni. Hann er friðaður.   Bílastæði eru á staðnum.  
Reykholt í Borgarfirði
Reykholt í Borgarfirði er lítið þorp og einn merkasti sögustaður landsins. Líkast frægast vegna búsetu Snorra Sturlusonar. Í Reykholti er ýmislegt að skoða og uppgötva fyrir ferðalanga, hvort sem áhuginn liggur í sögu, tónlist, fornminjum, mat og drykk eða útivist.  Snorralaug er í Reykholti, forn og friðlýst laug, kennd við Snorra þótt Landnáma segi að á staðnum hafi verið laug frá árinu 960. Vatni er veitt í laugina um lokaðan stokk úr hvernum Skriflu. Töluverður jarðhiti í Reykholti, eins og nafnið ber með sér, sem m.a. er nýttur til húshitunnar og gróðurhúsaræktunar. Kirkjur hafa staðið í Reykholti frá upphafi kristni. Þar eru nú tvær kirkjur. Sú eldri er timburkirkja. Við viðgerðir á henni var tekið mið af upprunalegri gerð kirkjunnar. Kirkjan er öllum opin.   Uppbygging nýrrar kirkju, hófst 1988 og lauk með vígslu árið 1996. Kirkjan þykir afburðagóð til hljómleikahalds af ýmsum toga og er öflugt tónlistarlíf í kirkjunni, m.a. Reykholtshátíð sem haldin er í lok júlí ár hvert.   Reykholtsskógur er skemmtilegt útivistarsvæði með mörgum stígum. Í skóginum má finna ber og sveppi, fallega flóru og vísir að merktu trjásafni. Forn þjóðleið liggur meðfram og í gegnum skóginn.   Höskuldargerði, hlaðið úr grjóti og söðlabúr með torfþaki, var gert fyrir ríðandi umferð á staðinn. Tilvalið er fyrir gesti Reykholtsstaðar að ganga um skóginn og njóta kyrrðar og útvistar á sögustað.  Snorrastofa í Reykholti býður upp á sýningar, leiðsögn og fyrirlestra. Fosshótel er rekið í Reykholti