Fara í efni

Á Vesturlandi má finna fallega fossa af ýmsum stærðum og gerðum, þar á meðal Glym sem er hæsti aðgengilegi foss landsins og náttúruperluna Hraunfossa. 

Bjarnarfoss á Snæfellsnesi
Bjarnarfoss á Snæfellsnesi er tignarlegur foss, ofan við Búðir, sem fellur fram af hamrabrún fyrir neðan Mælifell. Fossinn, ásamt stuðlabergshömrunum í kring, er á Náttúruminjaskrá og í brekkunum við fossinn er mikið blómgresi.   Stórt bílastæði er fyrir neðan fossinn og góður göngustígur upp í brekkurnar undir fossinum. Áningarstaðurinn við Bjarnarfoss hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2018. 
Hraunfossar í Borgarfirði
Hraunfossar í Borgarfirði eru sérstakt náttúruvætti og þykja með fegurstu náttúruperlum landsins. Þar streymir lindárvatn hvítfyssandi undan Hallmundarhrauni og niður í Hvítá. Staður sem vart á sinn líka. Umhverfið var friðlýst árið 1987. Annað nafn á fossunum eru Girðingar.  Bílastæði eru við Hraunfossa, upplýsingaskilti ásamt merktum göngustígum, veitingasölu og salernum.  
Kirkjufellsfoss á Snæfellsnesi
Afar vinsælt er að fara yfir gömlu brúnna sem liggur ofan við fossinn og njóta þaðan stórkostlegs útsýnis á Kirkjufellið.  
Þórufoss í Kjósarhreppi
Fossinn er fallegur áningarstaður og hægt er að ganga stutta leið að fossinum frá bílastæði sem staðsett er við þjóðveginn 
Fossá
Fallegur foss við veginn sem gaman er að stoppa við og njóta fallegrar náttúru. Skjólsæll staður og hjálpar þar til skóræktin við Fossá sem er opin skógur og gaman er að taka göngu í skóginum.
Glanni í Borgarfirði
Veiðar eru stranglega bannaðar í fossinum.
Svöðufoss á Snæfellsnesi
Svöðufoss á Snæfellsnesi er fallegur foss í Hólmkelsá, skammt frá Rifi. Fossinn er 10 metra hár og fellur af fallegum basalt súlukletti með stuðlabergsumgjörð.   Búið er að byggja bílastæði í nágrenni við fossinn svo auðvelt að komast að honum. Gangan frá bílastæðinu að fossinum tekur um 30 mínútur.  
Barnafoss í Borgarfirði
Barnafoss í Hvítá í Borgarfirði, er sérkennilegt náttúruvætti sem liggur í þrengingum við jaðar Hallmundarhrauns rétt fyrir ofan Hraunfossa, gegnt bænum Gilsbakka. Svæðið hefur verið friðlýst sem náttúruvætti frá 1987.  Fossinn dregur nafn sitt af tveimur börnum sem áttu, endur fyrir löngu, að hafa fallið í ána af steinboga sem lá yfir hana. Er móðir barnanna varð þess áskynja lét hún höggva steinbogann og mælti svo um að yfir fossinn skyldi enginn maður komast lífs af um aldur og ævi.   Til eru heimildir fyrir því að Barnafoss hafi áður verið nefndur Bjarnafoss og fyrsta brúin yfir fossinn var byggð árið 1891.   Við Barnafoss eru bílastæði, upplýsingaskilti og merktar gönguleiðir ásamt veitingasölu og salernum.    
Glymur í Hvalfirði
Fossinn Glymur er í Botnsdal, í Hvalfjarðarsveit. Hann kemur úr Botnsá og er hæsti aðgengilegi foss landsins en fallhæð hans er 198 metrar. Rennur áin síðan í hrikalegu gljúfri niður undir dalbotn og út í Botnsvog.   Gönguferð að fossinum Glym getur tekið á bilinu 3-4 klukkustundir. Bílastæði er inni í dalnum og liggur greinilegur stígur upp að fossinum. Hann sést betur frá suðurbrún gilsins og þá leið fara margir. Gönguleiðin hefur verið merkt með gulmáluðum steinum með vissu millibili.   Ganga upp að fossinum er fyrir fólk sem er í þokkalegu formi, því bæði er brött brekka á gönguleiðinni ásamt lausum skriðum.  Á vorin og fram eftir sumri er í gilinu er mikið varp fýls. Áin sjálf kemur úr Hvalvatni einu dýpsta vatni landsins sem liggur ofan við fjallið Hvalfell.          
Tröllafossar í Borgarfirði
Tröllafossar í Borgarfirði eru fossa- og flúðasvæði í Grímsá. Óvenjufallegt útsýni og sjónarhorn er þaðan á fjallið, Skessuhorn. Á sumrin er algengt að sjá laxa stökkva upp fossana. Auðveld aðkoma er að fossunum við veitingastaðinn í Fossatúni. Í klettum við árbakkann er afar skýr tröllkonumynd.  Tröllagarður er í Fossatúni þar sem hægt er að fara í tröllaleiki og gönguferðir og meðal annars kynnast persónum úr sögunni Tryggðatröll eftir Steinar Berg.