Fara í efni

Vesturland er ríkt af sérstæðu landslagi og náttúru. Þar er fjölbreytt náttúrufegurð, fjöll, dalir, fjörur, eyjar, veiðiár, vötn og fossar, auk þess sem þar eru mörg náttúruvætti og friðlönd. Fjölskrúðugt lífríki byggist á margbreytileika í jarðfræði svæðisins þar sem má finna jarðminjar frá öllum skeiðum í jarðsögu landsins. Dýralíf er þar fjölbreytt og má finna óteljandi fuglategundir, hvali, seli og íslensku tófuna ef heppnin er með í för. 

 

Arnarstapi
Arnarstapi á Snæfellsnesi er vinsæll ferðamannastaður fyrir alla fjölskylduna. Þar eru góðar gönguleiðir, hótel, tjaldsvæði, gistihús og veitingastaðir. Frá Arnarstapa er einnig boðið upp á ferðir á Snæfellsjökul. Stapafell er þar fyrir ofan og Sönghellir norðan í fellinu. Ströndin við Arnarstapa er ákaflega fögur og sérkennileg, einkennilega mótuð af briminu. Gönguleiðin milli Arnarstapa og Hellna er einstaklega skemmtileg og að hluta til gömul reiðgata. Hún er við allra hæfi og er ströndin er friðlýst.   Arnarstapi var áður fyrr kaupstaður, sjávarpláss með miklu útræði og lendingin var talin ein sú besta undir Jökli.   Smábátahöfnin var endurbætt árið 2002 og er í dag eina höfnin á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þangað koma menn af ýmsum stöðum á landinu og gera út dagróðrabáta yfir sumartímann.   Arnarstapa er getið í Bárðar-sögu Snæfellsáss og þar er steinlistaverkið Bárður Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson myndhöggvara sem setur mikinn svip á svæðið.       
Dagverðarnes í Dölum
Í Dagverðarnes í Dölum kom Auður djúpúðga í leit að öndvegissúlunum og snæddi þar dögurð og dregur nesið nafn sitt af þeim viðburði.   Á vinstri hönd, á leið niður á nesið, er friðlýstur grjóthringur með grjótbungu í miðju.   Talið er að kirkja hafi lengi verið í Dagverðarnesi. Núverandi kirkja var byggð árið 1934 úr viðum fyrri kirkju og er hún friðuð. Þar hefur alla jafna verið messað einu sinni ári. Úti fyrir nesinu liggur Hrappsey þar sem rekin var fyrsta veraldlega prentsmiðja landsins 
Breiðafjörður
Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins og liggur á milli Vestfjarðakjálkans og Snæfellsness.   Eyjar á Breiðafirði eru eitt af þrennu sem kallað hefur verið óteljandi á Íslandi. Auk eyjanna eru í flóanum aragrúi skerja sem fara í kaf á flóði. Áður fyrr var töluverður búskapur í eyjunum og byggð talsverð. Eyjabúskapur var um margt sérstakur og komust íbúarnir vel af því eyjarnar voru réttnefndar matarkistur. Enn eru þar hlunnindi af dún- og eggjatöku.  Í straumskiptum milli flóðs og fjöru streymir mikill massi sjávar inn og út milli eyjanna og skerjanna. Straumarnir eru víða miklir og hættulegir minni bátum. Þessir straumar hafa átt þátt í að móta hið sérstæða breiðfirska bátalag.   Aðalheimkynni hafarnarins eru við Breiðafjörð, en hann er í senn sjaldgæfasti og langstærsti ránfuglinn í íslensku fuglafánunni.  
Blautós Innstavogsnes við Akranes
Blautós og Innstavogsnes við Akranes er friðland, auðugt af fuglalífi og vel gróðri vaxið. Það er staðsett norðvestur frá Akrafjalli, rétt við bæjarmörk Akraness. Í voginn rennur Berjadalsá úr Akrafjalli.   Umhverfið býr yfir fallegu landslagi og athyglisverðum jarðmyndunum frá tímum síðustu ísskeiða. Þar er viðkomustaður Margæsa vor og haust á ferð þeirra milli landa. Blautós og Innstavogsnes gegna mikilvægu upplýsingahlutverki og búa yfir fallegum og fjölbreytilegum landslagsþáttum og afþreyingarmöguleikum.  
Meðalfellsvatn í Kjós
Meðalfellsvatn í Kjós er kjörið til útivistar. Þar hefur alltaf verið nokkur silungsveiði og jafnvel hefur fólk sett í lax. Handhafar Veiðikortsins hafa leyfi til að veiða í vatninu. Úr Meðalfellsvatni fellur áin Bugða sem rennur í Laxá í Kjós.   Á vatnasvæði Bugðu eru allar hérlendar ferskvatnstegundir fiska, lax, bleikja, urriði, áll og hornsíli.  Meðalfellsvatn er einnig áhugaverður staður til fuglaskoðunar. Himbrimar verpa við vatnið og mikill fjöldi straumanda sækir í bitmýslirfur á botni Bugðu, snemma á vorin.   Fyrir norðan vatnið er bratt fjall, Meðalfell, sem skiptir byggðinni í tvennt á stóru svæði.  
Löngufjörur Á Snæfellsnesi
Löngufjörur á sunnanverðu Snæfellsnesi eru ljósar skeljasandsfjörur og leirar sem eru vinsælar til útreiða.   Förurnar eru heillandi fyrir hestamenn að ferðast um því þar er hægt að taka klárana til kostanna og þeysa um. Mjög er þó varasamt að fara þar um nema með leiðsögn.  Fjörurnar eru oftast taldar ná frá Hítarnesi og vestur að Stakkhamri.  
Breiðin á Akranesi
Breiðin er syðsti hluti Akraness og þar er fagurt útsýni yfir allan Faxaflóann, sérstaklega ef farið er alla leið upp í Akranesvita, en þaðan má sjá allt frá Reykjanesskaga að Snæfellsjökli í góðu skyggni.   Á Breiðinni er að finna einn elsta steinsteypta vita landsins frá árinu 1918 ásamt yngri vita, Akranesvita, sem reistur var á árunum 1943-44. Á Breið eru líka gamlir skreiðarhjallar og greina má steinlagt stakkstæði þar sem saltfiskur var breiddur út á góðviðrisdögum áður fyrr.   Fuglalíf er mikið á þessu svæði og mikilfenglegar, brimbarðar klapparfjörur. Norðurljósadýrð getur orðið þar einstök og sólarlagið ægifagurt. Svæðið býður því upp á einstakt útsýni og litadýrð allan ársins hring.  
Ytri Tunga
Fjaran við bæinn Ytri-Tungu er tilvalinn staður til að skoða seli. Besti tíminn til selaskoðunar er í júní og júlí.
Lóndrangar á Snæfellsnesi
Lóndrangar á Snæfellsnesi eru tveir klettadrangar sem rísa stakir út við ströndina, rétt fyrir fyrir vestan Hellna. Þeir eru óvenju formfagrir, fornir gígtappar og verpti örn fyrrum í hærri draganum.   Stikuð gönguleið er frá Malarrifi að Lóndröngum. Stígurinn er fær öllu göngufæru fólki, en á kafla, næst dröngunum, er gengið í fjörugrjóti. Lengi vel voru Lóndrangar taldir ókleifir með öllu, en 1735 var hærri drangurinn klifinn í fyrsta sinn svo vitað sé. Munnmæli eru um að sakamaður hafi eitt sinn komist upp í minni dranginn og bjargað þannig lífi sínu og komist á erlent skip.   Áður fyrr var útræði hjá Lóndröngum og sagt er að 12 skip hafi verið gerð þaðan út þegar mest var. Lendingin var fyrir austan hærri dranginn og heitir þar Drangsvogur. Til skamms tíma sáust við drangana rústir af sjóbúðum. Fiskigarðar og fiskreitir sjást þar í hrauninu fyrir ofan. Aðstaða til útgerðar hefur verið mjög erfið, fyrir opnu hafi. 
Hvanneyri í Borgarfirði
Hvanneyri er lítið, vaxandi þéttbýli í Borgarfirði, þar sem eru höfuðstöðvar Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar eru einnig starfrækt Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið, verslun með handverk úr handunninni íslenskri ull. Hvanneyrartorfan, sem inniheldur gömlu skólahúsin á Hvanneyri, fjósin, kirkjuna, íþróttahús og Skemmuna, er friðuð vegna sérstöðu sinnar. Þar er einstakt safn verka fyrstu íslensku húsameistaranna, þeirra Rögnvaldar Ólafssonar, Einars Erlendssonar og Guðjóns Samúelssonar. Hvanneyri var friðlýst sem búsvæði árið 2003 en stækkað árið 2011 og fékk friðaða svæðið nafnið Andakíll. Þar hefur blesgæsin viðkomu á túnum staðarins bæði vor og haust og er hún algjörlega friðuð. Svæðið er mjög ríkt af fuglalífi stóran hluta ársins. Almenningi er heimill aðgangur til náttúruskoðunar og fræðslu. Jörðin er í landnámi Skallagríms Kveldúlfssonar, en þar bjó fyrstur Grímur hinn háleyski Þórisson sem Skallagrímur gaf land fyrir sunnan fjörð (Borgarfjörð).   Kirkja hefur staðið á Hvanneyri í margar aldir. Núverandi kirkja var vígð árið 1905 og er í eigu skólans á staðnum sem er sérstakt