Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

MARGRÉT BJÖRK TEKIN VIÐ STARFI FORSTÖÐUMANNS MARKAÐSSTOFU VESTURLANDS

Margrét Björk Björnsdóttir tók við starfi forstöðumanns Markaðsstofu Vesturlands þann 30. apríl síðastliðinn.

Margrét Björk Björnsdóttir tók við starfi forstöðumanns Markaðsstofu Vesturlands þann 30. apríl síðastliðinn. Margrét Björk – eða Maggý eins og hún er oftast kölluð, er vel kunnug Vesturlandi enda borinn og barnfæddur Snæfellingur og hefur víða komið við á sínum ferli.

Margrét Björk var í fyrsta útskriftarhópnum sem lauk BA námi í ferðamálum frá Háskólanum á Hólum. BA verkefnið hennar fjallaði um ferðamál, sjálfsvirðingu samfélaga og byggðaþróun. Maggý er því ferðamálafræðingur að mennt en hefur einnig lokið diplóma í verkefnastjórnun og leiðtogafræðum frá EHÍ, stofnun og rekstri smáfyrirtækja frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og ferðamálum dreifbýlis frá Hólaskóla.

Margrét Björk hefur starfað sem atvinnuráðgjafi hjá SSV-þróun og ráðgjöf síðastliðin 11 ár, en hefur einnig sinnt verkefnastjórn í ýmsum verkefnum sem lúta að byggðaþróun og ferðamálum.

„Starfið mitt hjá SSV hefur þróast í áranna rás. Ég hef bætt við mig þekkingu í verkefnastjórnun og leiðtogahæfni, og hef verið verkefnisstjóri í nokkrum sérverkefnum sem flest tengjast ferðamálum og byggðaþróun. Ég tók einnig þrjá MS kúrsa í skipulagsfræðum við LBHI til að skerpa skilning minn á skipulagsmálum þegar þau voru orðin stór þáttur í ferðamálaumræðunni. Síðasta árið hef ég svo unnið fyrir Markaðsstofu Vesturlands sem verkefnisstjóri fyrir Áfangastaðaáætlun Vesturlands sem unnin var undir verkstjórn og fyrir Ferðamálastofu. Í beinu framhaldi af vinnunni við Áfangastaðaáætlun Vesturlands fékkst stuðningur til að vinna að fjórum áhersluverkefnum árin 2019 og 2020 til að stuðla að ábyrgri uppbyggingu ferðamála á Vesturlandi og hef ég unnið að kynningu á Áfangastaðaáætlun og innleiðingu á þeim verkefnum síðastliðna mánuði. Ég þekki því vel til stöðu mála, væntinga og framtíðarsýn varðandi ferðamál á Vesturlandi og hlakka til að vinna með öllu því góða fólki sem tengist ferðamálum á Vesturlandi og takast á við þau spennandi en jafnframt krefjandi verkefni sem blasa við til að efla gæði og ábyrga uppbyggingu ferðamála og kynna Vesturland sem eftirsóknarverðan áfangastað,” segir Margrét Björk.

Við bjóðum Maggý velkomna til starfa á Markaðsstofu Vesturlands.