Fara í efni

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er staðsettur á utanverðu Snæfellsnesi á Vesturlandi. Hann er um 170 km2 að stærð og fyrsti þjóðgarður landsins sem nær að sjó. Þjóðgarðurinn var stofnaður 28. júní árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Jafnframt er markmiðið að auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því.

Saxhóll á Snæfellsnesi
Saxhóll á Snæfellsnesi er 40 metra hár, formfagur gígur innan marka Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Gígurinn hefur verið vinsæll til uppgöngu enda staðsettur nálægt veginum og aðgengi að honum gott. Tröppur hafa verið lagðar upp á toppinn þannig að auðvelt er að ganga upp og njóti útsýnisins. Bílastæði eru við gíginn.   Skemmdir voru unnar á hólnum fyrr á tíð er efni var tekið úr honum til ofaníburðar.   Hólarnir eru í raun tveir, Stóri-Saxhóll og Litli-Saxhóll. Þriðji hóllinn er úti í hrauninu suðvestur af bæjarrústunum og heitir hann Sauðhóll. Voru þar beitarhús og er hellir austan í hólnum. Saxhóll var bær sem farinn er í eyði fyrir löngu. Þar var kirkja nær allan tíma forns siðar í landinu. Tröppustígurin upp í gíginn var tilnefndur til fernra verðlauna 2017-2018; Menningarverðlaun DV, Nordic Architecture Fair Award, Hönnunarverðlauna Íslands og Rosa Barba International Landscape Prize í Barcelona en þau verðlaun hlaut hann í september 2018.  
Viti - Öndverðarnesviti á Snæfellsnesi
Fyrsti vitinn á Öndverðanesi á Snæfellsnesi var reistur árið 1909. Hann var stólpaviti en árið 1914 var reist 2,5 metra há timburklædd járngrind með 2,4 m háu áttstrendu ljóshúsi. Steinsteyptur viti var síðan byggður að Öndverðarnesi árið 1973. Hann er ferstrendur 3,5 metra hár með 3 m háu áttstrendu ljóshúsi. Vitinn er sömu gerðar og Surtseyjarviti sem reistur var sama ár. Aðalsteinn Júlíusson verkfræðingur hannaði vitann. Upplýsingar eru fengnar úr bókinni Vitar á Íslandi, útgefandi Siglingastofnun Íslands, 2002. 
Snæfellsjökulsþjóðgarður
Yst á SnæfSellsnesi trónir hinn dularfulli Snæfellsjökull og þar var Snæfellsjökulsþjóðgarður stofnaður árið 2001. Hlutverk þjóðgarðsins er að vernda náttúru og landslag, vistkerfi, dýralíf sem og menningararf svæðisins.  Þjóðgarðurinn er fyrsti þjóðgarður landsins sem nær að sjó og hefur þá sérstöðu að geyma minjar frá útræði fyrri alda. Landslagið á Snæfellsnesi er magnþrungið og margbreytilegt. Ströndin er fjölbreytt þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar með iðandi fuglalífi um varptímann.  Láglendið innan þjóðgarðsins er að mestu hraun sem runnið hafa frá Snæfellsjökli eða eldvörpum á láglendi og eru víðast þakin mosa en inn á milli má finna fallega, skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri. Láglendið á sunnanverðu Snæfellsnesi er forn sjávarbotn sem risið hefur frá því ísöld lauk. Hamrabeltin upp af láglendinu eru því gamlir sjávarhamrar.  Snæfellsjökull gnæfir tignarlegur yfir umhverfinu og og undirfjöll hans eru margbreytileg að lögun. Ofar í landinu og nær Jökulhálsi eru vikurflákar og land sem er nýlega komið undan jökli.  Almenningi er heimil för um þjóðgarðinn en ganga skal snyrtilega um svæðið og fylgja öllum umgengnisreglum sem gilda eins og hirða rusl og fylgja merktum leiðum og skipulögðum stígum. Umferð reiðhjóla er aðeins heimil á skilgreindum hjólastígum og vegum og lausaganga hrossa og hunda er ekki heimil. Einnig er óheimilt að kveikja eld á víðavangi þar sem hætta getur stafað af, hvort sem um er að ræða gróður, dýralíf eða mannvirki.  Gestastofa Snæfellsjökulsþjóðgarðs er á Malarrifi. Þar eru starfandi landverðir sem veita upplýsingar og aðstoð. Gestastofan og salernin þar eru opin allt árið.  
Viti - Svörtuloftaviti á Snæfellsnesi
Árið 1914 var reistur 10 m hár járngrindarviti með 2,3, m ljóshúsi yst á Skálasnaga á Svörtuloftum vestast á Snæfellsnesi.  Thorvald Krabbe teiknaði mannvirkið. Vitinn entist í 17 ár þá var hann orðinn mjög ryðbrunninn og þótti ekki lengur treystandi. Árið 1931 var tekinn í notkun nýr viti sá var steinsteyptur, ferstrendur 9,5 m hár. Benedikt Jónsson verkfræðingur hannaði vitann. Upplýsingar eru fengnar úr bókinni Vitar á Íslandi, útgefandi er Siglingastofnun Íslands árið 2002.
Snæfellsjökull á Snæfellsnesi
Snæfellsjökull á Snæfellsnesi með frægustu jöklum á Íslandi og hefur oft verið kallaður konungur íslenskra fjalla. Hann er í röð formfegurstu jökla á Íslandi,1446 m hár og sést víða að. Margir njóta fegurðar hans í fallegu sólsetri.   Snæfellsjökull er gamalt eldfjall sem hið efra er mjög reglulega löguð eldkeila. Gígskálin á toppi jökulsins er um 200 metra djúp, girt íshörmum. Á barmi skálarinnar rísa þrír tindar, eða þúfur, Jökulþúfur. Er miðþúfan hæsti tindur jökulsins.   Sumir finna sterk áhrif frá jöklinum og telja að hann sé ein af sjö stærstu orkustöðvum jarðar. Löngum hefur dulúð því sveipað jökulinn og umhverfi hans. Þeir sem hyggja á ferðir á Snæfellsjökul skulu kynna sér vel aðstæður og ástand jökulsins. Akstur vélknúinna ökutækja á jökli er háður leyfi þjóðgarðsvarðar. Óvönu fólki er bent á að ganga á Snæfellsjökul með leiðsögumanni en nokkur fyrirtæki bjóða uppá ferðir á jökulinn. Svæðið um vestanvert Snæfellsnes er löngum kallað "undir jökli".
Skálasnagaviti á Snæfellsnesi
Skálasnaga­viti á Snæfellsnesi vís­ar sjófar­end­um leið og laðar til sín fjölda ferðamanna, bæði inn­lenda og er­lenda. Vitinn stendur á Skálasnaga á Saxhólsbjargi en bjargið nefnist Svörtuloft séð af sjó. Frá landi nefnist syðri hluti bjargsins Saxhólsbjarg en Nesbjarg norðar. Árið 1914 var reistur 10 m hár járngrindarviti með 2,3, m ljóshúsi yst á Skálasnaga á Svörtuloftum vestast á Snæfellsnesi.  Thorvald Krabbe teiknaði mannvirkið. Vitinn entist í 17 ár þá var hann orðinn mjög ryðbrunninn og þótti ekki lengur treystandi. Árið 1931 var tekinn í notkun nýr viti sá var steinsteyptur, ferstrendur 9,5 m hár. Benedikt Jónsson verkfræðingur hannaði vitann. Upplýsingar eru fengnar úr bókinni Vitar á Íslandi, útgefandi er Siglingastofnun Íslands árið 2002.
Svalþúfa og Þúfubjarg á Snæfellsnesi
Svalþúfa og Þúfubjarg á Snæfellsnesi er stór móbergshöfði skammt austan við Lóndranga. Framhluti höfðans heitir Þúfubjarg og í fyrndinni var talið að Kolbeinn Grímsson jöklaskáld og Kölski hefðu kveðist þar á. Svalþúfa er hins vegar grasi gróið svæði sem ekki mátti slá því hún var talin eign álfa. Bílastæði er þar sem Þúfubjargið gengur þverhnípt í sjó fram. Gönguleið er frá bílastæðinu upp á Þúfubjarg og þaðan niður af bjarginu, um hraunið fram hjá Lóndröngum. Þetta er mjög falleg gönguleið þar sem margt er að sjá og skoða. Kölski og Kolbeinn jöklaskáld Grímsson höfðu ákveðið að kveðast á, skyldu þeir sitja hvor hjá öðrum á Þúfubjargi, þegar brim væri mikið. Fyrri hluta næturinnar ætti Kölski að gera fyrri partana og Kolbeinn botna hjá honum og hlutverkin skyldu síðan snúast við er leið á nótt. Sá sem ekki gæti botnað hjá honum myndi steypast ofan af bjarginu og vera þaðan í frá á valdi hins.   Settust þeir út á bjargið eina nótt er tungl óð í skýjum. Fyrrihluta nætur gengur Kolbeini vel að botna vísur Kölska. Síðla nætur er, Kölski skyldi botna, gengur það allvel uns Kolbeinn tekur upp hníf úr vasa sínum, heldur honum fyrir framan glyrnurnar á Kölska svo eggin bar við tunglið og segir um leið: Horfðu í þessa egg, egg undir þetta tungl, tungl. Varð Kölska þá hreinlega orðfall því hann fann ekkert íslenskt orð sem rímaði á móti tungl og segir í vandræðum sínum: „það er ekki skáldskapur að tarna Kolbeinn.“ En Kolbeinn botnar vísuna samstundis og segir:Ég steypi þér þá með legg, legg,lið sem hrærir ungl, ungl.Er Kölski heyrir þetta, beið hann ekki boðanna, steyptist ofan af bjarginu í eina brimölduna og bauð ekki Kolbeini til að kveðast á eftir þetta.  
Lóndrangar á Snæfellsnesi
Lóndrangar á Snæfellsnesi eru tveir klettadrangar sem rísa stakir út við ströndina, rétt fyrir fyrir vestan Hellna. Þeir eru óvenju formfagrir, fornir gígtappar og verpti örn fyrrum í hærri draganum.   Stikuð gönguleið er frá Malarrifi að Lóndröngum. Stígurinn er fær öllu göngufæru fólki, en á kafla, næst dröngunum, er gengið í fjörugrjóti. Lengi vel voru Lóndrangar taldir ókleifir með öllu, en 1735 var hærri drangurinn klifinn í fyrsta sinn svo vitað sé. Munnmæli eru um að sakamaður hafi eitt sinn komist upp í minni dranginn og bjargað þannig lífi sínu og komist á erlent skip.   Áður fyrr var útræði hjá Lóndröngum og sagt er að 12 skip hafi verið gerð þaðan út þegar mest var. Lendingin var fyrir austan hærri dranginn og heitir þar Drangsvogur. Til skamms tíma sáust við drangana rústir af sjóbúðum. Fiskigarðar og fiskreitir sjást þar í hrauninu fyrir ofan. Aðstaða til útgerðar hefur verið mjög erfið, fyrir opnu hafi. 
Fiskibyrgi við Gufuskála á Snæfellsnesi
Fiskibyrgi, rétt við Gufuskála á Snæfellsnesi eru merkileg byrgi sem byggð voru fyrr á öldum til að geyma fisk og þurrka. Þau eru hlaðin úr grjóti úti á hrauninu sjálfu og nokkuð erfitt að greina þau frá vegi.   Um 10 mínútna ganga er frá veginum við Gufuskála (vegnúmer 574) upp að nokkuð heillegu byrgi sem má skríða inn í. Þegar inn er komið, er byrgið manngengt  Byrgin voru hlaðin upp í topp og hafa skipt hundruðum fyrr á tíð. Mörg þeirra eru enn sýnileg, enda voru Gufuskálar mikil útgerðarstöð. Talið er að byrgin geti verið um 5-700 ára gömul.  
Djúpalónssandur á Snæfellsnesi
Djúpalónssandur á Snæfellsnesi er skemmtileg, bogamynduð malarvík með ýmsum furðulegum klettamyndunum. Þarna er einstaklega kraftmikill staður þar sem hraunið mætir úthafinu þar sem hægt er að fá orku, innblástur og útrás en líka kyrrð og frið.   Á árum áður var útgerð og verbúðarlíf á Djúpalónssandi og þótti mönnum þar reimt. Frá þeim tíma eru fjórir aflraunasteinar sem liggja undir kletti þegar komið er niður undir sandströndina. Þeir heita Fullsterkur 154 kg, Hálfsterkur 100 kg, Hálfdrættingur 54 kg, Amlóði 23 kg. Vinsælt er að reyna krafta sína á steinunum sem liggja undir Gatkletti.   Bannað er að vaða og synda í sjónum við Djúpalónssand en mikið dýpi og sterkir straumar gera slíkt lífshættulegt.   Frá Djúpalónssandi er um 1 km löng gönguleið yfir í Dritvík þar sem var mikil útgerð fyrrum. Dritvíkingar urðu að sækja allt vatn yfir á Djúpalónssand. Vatnsstígur þeirra lá yfir nesið Suðurbarða eða Víkurbarða.   Bílastæði og salerni eru á staðnum.  
Öndverðarnes á Snæfellsnesi
Öndverðarnes er vestasti tangi Snæfellsness. Þar var, á árum áður, mikil útgerð og margar þurrabúðir en jörðin hefur nú verið í eyði frá 1945. Á Öndverðarnesi má sjá nokkrar rústir auk þess sem þar er rekinn viti. Af hlöðnum minjum og ummerkjum sést að á staðnum hefur verið mikið mannlíf áður fyrr. Þar má finna haglega hlaðinn og að nokkru yfirbyggðan brunn sem hægt er að ganga niður í eftir nokkrum þrepum.   Brunnurinn, sem nefndur er Fálki, var áður eina vatnsból Öndverðarness og er hann ævaforn og friðaður. Sagan segir að í brunninum væri að finna þrjár ólíkar lindir, eina með fersku vatni, aðra með ölkelduvatni og þá þriðju með keim af salti.   Klettarnir við Öndverðarnes eru víða snarbrattir og freistandi er að kíkja fram af þeim og sjá sandborinn botninn speglast í grænum og bláum sjó.  
Vatnshellir á Snæfellsnesi
Vatnshellir á Snæfellsnesi er sérkennilegur hraunhellir í suðurhlíðum Purkhólahrauns og er talinn vera um 5-8000 ára gamall. Hellirinn er um 200 m langur og þar er hátt til lofts og vítt til veggja.  Vatnshellir hefur verið gerður aðgengilegur með hringstiga en umferð um hann er aðeins leyfð með leiðsögn. Nánari upplýsingar eru veittar á vefsíðu Summit Adventure Guides .
Malarrif á Snæfellsnesi
Malarrif á Snæfellsnesi var bær sem stóð skammt fyrir utan Lóndranga. Þar er sagt að ströndin undir jökli skagi lengst til suðurs.   Fyrsti vitin á Malarrifi var reistur árið 1917 og var hann friðaður árið 2003 ásamt sex öðrum vitum á landinu, þegar haldið var upp á að 125 ár voru frá því að fyrsti vitinn var reistur á Íslandi.  Útræði var öldum saman frá Malarrifi og sjósókn allmikil fram að aldamótunum 1900. Sjást þess enn merki á sjávarbakkanum. Sagt var að þar væri einn hættulegasti útgerðarstaður á Snæfellsnesi.   Gestastofa Þjóðgarðins Snæfellsjökuls er á Malarrifi en þar eru starfandi landverðir sem veita upplýsingar og aðstoð. Gestastofan og salerni eru opin allt árið.
Malarrifsviti á Snæfellsnesi
Yst á Malarrifi á Snæfellsnesi var árið 1917 reistur 20 m hár járngrindarviti, nálægt Lóndröngum. Árið 1946 var byggður nýr steinsteyptur viti í stað járngrindarvitans. Hann er 20,2 m hár sívalur turn. Fjórir stoðveggir eru upp með turninum.  Í vitanum eru fimm steinsteypt milligólf með tréstiga milli hæða. Ágúst Pálsson arkitekt hannaði vitann. Íbúðarhús fyrir vitavörð var reist við Malarrifsvita árið 1948 en Starfsmannafélag Siglingastofnunar Íslands fékk húsið til afnota árið 1999. Malarrifsviti var friðaður árið 2003 ásamt sex öðrum vitum þegar haldið var upp á að 125 ár voru frá því að fyrsti viti landsins var reistur. Upplýsingar eru meðal annars fengnar úr Vitar á Íslandi, útgefandi Siglingastofnun Íslands árið 2002.