Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Njótum Vesturlands allt árið

sumar.png
Njótum Vesturlands allt árið

Við hvetjum Íslendinga til að ferðast um landið sitt, til að njóta alls þess sem landið hefur upp á að bjóða og göngum vel um fallegu náttúruna okkar. Vesturland er mjög aðgengilegt allt árið mikið úrval er á gistimöguleikum allt árið og alltaf bætist við afþreying ár frá ári. 

Veitingar

Fyrir svanga og þyrsta er óþarfi að örvænta, því nóg er af
veitingastöðum, kaffihúsum, ísbúðum og djúsbörum um allt Vesturland.

Afþreying

Á Íslandi má finna ýmiskonar afþreyingu, allt frá matreiðslunámskeiðum til útsýnisflugs. Á
listanum hér fyrir neðan eru ýmsar hugmyndir og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Gisting

Íslensk ferðaþjónusta hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum og gistimöguleikum að
sama skapi fjölgað. Fjölbreytt gisting er í boði um allt land, hvort sem óskað er eftir lúxus
gistingu með dekri eða ódýrari valkostum. Listinn hér að neðan sýnir úrval gistimöguleika.

Sundlaugar

Hvað er skemmtilegra á góðum sumardegi eða köldum vetrardegi en að skella sér í sund. Um allt Vesturland er fjöldinn allur af sundlaugum, stórum og smáum. Flestar eru útilaugar en þó er ein og ein innilaug. Flestar sundlaugar eru opnar allan ársins hring og eru gríðarlega vinsælar jafnt hjá heimamönnum sem ferðamönnum.

Söfn

Á Íslandi eru allskonar söfn. Flest þeirra eru nokkuð hefðbundin og má þar nefna bóka,lista
og minjasöfn, önnur eru óhefðbundnari og eru tileinkuð draugum og ýmsu öðru
forvitnilegu.

Golfvellir

Golfáhugafólk hefur af nógu að taka, því víða um Vesturland eru prýðilegir golfvellir,bæði smáir og stórir.

TOPp 10 Vesturland

Á þessum lista teljum við upp staði sem skara fram úr vegna náttúru eða sögu. Auðvitað er þetta ekki tæmandi listi og margir staðir eftir fyrir þig til að upplifa og uppgötva.

Akranes vitar. Á Breiðinni á Akranesi er að finna tvo fallega vita. Árið 1918 var byggður steinsteyptur viti yst á Syðriflös á Akranesi eftir teikningu Thorvalds Krabbe verkfræðings. Ljóshúsið var smíðað úr járnplötum úr Goðafossi sem strandaði undir Straumnesfjalli árið áður. Árin 1943 - 1944 var reistur nýr 19,2 metra hár viti eftir teikningu Axels Sveinssonar verkfræðings. Gaman er að fara upp í nýja vitann og er útsýnið úr honum einstakt. Haldnir hafa verið ýmsir viðburðir í nýja vitanum, tónleikar og listasýningar.

Breiðafjörður er á milli Vestfjarðakjálkans og Snæfellsness. Vistkerfi Breiðafjarðar er einstakt fyrir margar sakir. Þar er mikið fuglalíf, selir sjást víða og fjöruborðið iðar af lífi. Í gegnum aldirnar hefur lífríki svæðisins verið mikil matarkista fyrir Breiðfirðinga og sterk hefð er fyrir eggjatínslu og öðrum nytjum. Svæðið dregur að fjöldann allan af ferðamönnum sem vilja upplifa kyrrð náttúrunnar og njóta fjölbreytninnar í umhverfinu. Vinsælt er að fara út í eyjuna Flatey en þar líður fólki eins og þar stígi aftur í tíman.

Deildartunguhver í Reykholtsdal er vatnsmesti hver Evrópu. Hann er samheiti á nokkrum hverum sem í heildina ná yfir um 50 m. svæði. Úr hverunum koma 180 L. af u.þ.b. 100° heitu vatni á sekúndu. Vatni úr hvernum er dælt til Borgarness og Akraness og einnig nýtt í náttúrulaugar Kraumu. 

Eiríksstaðir í Haukadal, heimili Eiríks rauða og konu hans Þjóðhildar. Þau reistu sér bú að Eiríksstöðum eftir því sem segir í Eiríks sögu rauða. Þar eru Leifur heppni og bræður hans fæddir. Í bænum er lifandi starfsemi og fólk klætt að fornum sið fræðir gesti. Þá eru söguskilti á svæðinu og stytta af Leifi eftir Nínu Sæmundsson. Gaman er að sitja inni í skálanum og setja sig inn í þann tíma sem fólk bjó við þessar aðstæður.

Glymur er í Botnsdal innst í Hvalfirði. Glymur er hæsti foss Íslands en fallhæð hans er 198 metrar. Botnsdalur er að stórum hluta skógi vaxinn og víða er þar að finna friðsælar lautir til lautaferðar eða afslöppunar. Þar er einnig berjaríkt síðsumars og fram eftir hausti. Gönguferð að fossinum Glym tekur á bilinu 3-4 klukkustundir. Ekið er inn Botnsdal, um 3 km eftir malarvegi, yfir gamla einbreiða brú og að merktu bílastæði þar sem gönguferðin hefst.

Hallmundarhraun er helluhraun sem talið er hafa myndast skömmu eftir landnám Íslands, einhvern tímann á 10. öld. Það er kennt við Hallmund þann sem Grettis saga segir að átti sér bústað á þessum slóðum. Í Hallmundarhrauni er að finna marga hella. Tveir af þeim eru Surtshellir, lengsti hraunhellir á Íslandi, og Víðgelmir er stærsti hellir á Íslandi.

Hraunfossar eru ein allra fegursta náttúruperla landsins. Ótal fossar sem spretta úr hraunjaðrinum og falla í Hvítá. Fallegar gönguleiðir eru um svæðið og hægt er að ganga að Barnafossi og einnig er brú yfir ánna sem hægt er að ganga yfir í hraunið. Sagan segir að steinbogi af náttúrunnar hendi hafi áður fyrr þjónað sem brú yfir Hvítá. En á jólum, endur fyrir löngu, hélt heimilisfólk í Hraunsási til kirkju á Gilsbakka í Hvítársíðu sem er bær hinum megin við fossinn. Tveir ungir strákar voru skildir eftir á Hraunsási. Þeim leiddist og veittu heimilisfólkinu eftirför. Er þeir komu á steinbogann litu þeir niður, misstu jafnvægið og féllu í ána. Eftir það lét húsfrúin að Hraunsási höggva bogann niður.

Kirkjufell er mest myndaða fjall Íslands og þykir vinsælt að ná mynd af fjallinu með Kirkjufellsfossinn í forgrunni. Fjallið er 463 m og hefur fólk verið að ganga á fjallið þó það sé mjög erfitt og aðeins fyrir göngufólk með reynslu. Erlendir miðlar hafa lofað fjallið í hástert og hefur það meðal annars verið sett á lista yfir 10 fallegustu fjöll heims.

Reykholt er einn af sögufrægustu stöðum landsins en þar bjó Snorri Sturluson skáld og stjórnmálamaður. Hann var mikilvirkur fræðimaður og meðal annars höfundur Snorra-Eddu sem er einskonar biblía norsku goðafræðinnar. Hann var einnig höfundur Heimskringlu er segir sögu norsku konunganna og hefst þar á hinni goðsagnakenndu Ynglinga sögu og rekur síðan sögu konunganna fram til samtíma síns. Einnig er talið líklegt að hann sé höfundur Egils sögu Skallagrímssonar. Í Reykholti er Snorrastofa, safn og rannsóknarstofnun um Snorra Sturluson.

Snæfellsjökull er 1446 m hár og hefur oft verið kallaður konungur íslenskra fjalla. Jökullinn sést víða á landinu og njóta margir fegurðar hans í fallegu sólsetri. Sumir finna sterk áhrif frá jöklinum og telja að hann sé ein af sjö stærstu orkustöðvum jarðar. Sagt er frá því í Bárðar sögu Snæfellsáss að Bárður hafi gefist upp á samneyti við fólk og að lokum gengið í jökulinn. Upp frá því er Bárður af sumum talinn verndari svæðisins. Þeim sem hyggja á ferðir á Snæfellsjökul er bent á að kynna sér vel aðstæður og ástand jökulsins. Tilmælum er beint til ökumanna snjósleða og jeppa að leitast við að trufla ekki umferð gangandi fólks á jöklinum. Óvönu fólki er bent á að ganga á jökulinn með leiðsögumanni en nokkur fyrirtæki bjóða uppá ferðir á jökulinn.

TOP 15 Vesturland fyrir börn

Topp 15 fyrir börnin á ferð um Vesturland

Allar sundlaugarnar á Vesturlandi
Hvað er skemmtilegra á góðum sumardegi eða köldum vetrardegi en að skella sér í sund. Um allt Vesturland er fjöldinn allur af sundlaugum, stórum og smáum. Flestar eru útilaugar en þó er ein og ein innilaug. Flestar sundlaugar eru opnar allan ársins hring og eru gríðarlega vinsælar jafnt hjá heimamönnum sem ferðamönnum.

Bjarteyjasandur
Á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði er sveitabær sem gaman er að heimsækja sumar jafnt sem vetur. Á vorin er vinsælt að koma í sauðburðinn og sjá nýfæddu lömbin. Einnig er gaman að fara í fjöruferð og sjá lífríki hennar. Á Bjarteyjarsandi er alltaf hægt að fá eitthvað gott í gogginn og nóg af afþreyingu, það fer þó eftir árstíð hvað er í boði.

Berjamó
Það er gaman að enda sumarið á því að skella sér í Berjamó. Víða á Vesturlandi eru góð berjalönd í fallegri náttúru. Nauðsynlegt er að fá leyfi hjá landeigenda áður en maður fer að týna. Í þjóðgarðinum Snæfellsjökli má bara týna uppí sig en ekki nota berjatínu og fötu. Ef þú notar berjatínu þá er nauðsynlegt að vanda sig svo maður skemmi ekki berjalyngið.

Bjössaróló
Gamall leikvöllur er í Borgarnesi hannaður og smíðaður af hugsjónamanninum Birni Guðmundssyni. Björn hugsaði um endurnýtingu og smíðaði leikvöllinn eingöngu úr efni sem hafði verið hent og nýttist ekki lengur. Á Bjössaróló eru rólur, rennibrautir, vegasalt, gamall bátur, brú og ýmislegt fleira skemmtilegt í ævintýralegu umhverfi. Og skammt frá er fjaran sem upplagt er að heimsækja í leiðinni. Skammt undan er einnig Skallagrímsgarður þar sem margt minnir á söguhetjurnar Egil og Skallagrím.

Eiríksstaðir
Í Haukadal í Dölum er búið að endurbyggja bæ sem talinn er hafa verið bær Eiríks rauða sem fann Grænland. Synir hans fæddust á Eiríksstöðum, einn þeirra var Leifur Eiríksson sem seinna var fyrsti Evrópumaðurinn til að koma til Ameríku eða Vínlands eins og það var kallað. Eftir að hann fann Ameríku var hann kallaður Leifur heppni. Við Hallgrímskirkju í Reykjavík er stytta af Leifi heppna.
En á Eiríkstöðum geta krakkar upplifað hvernig víkingarnir lifðu og fengið að halda á sverðum og skjöldum.

Hellaferð
Á Vesturlandi er að finna fjölmarga Hella en það getur verið hættulegt að fara í þá ef maður þekkir ekki aðstæður. Því mælum við með tveimur hellum sem hægt er að fara í með leiðsögumanni það eru Vatnshellir og Víðgelmir. Vatnshellir er í þjóðgarðinum Snæfellsnesi en Víðgelmir við bæinn Fljótstungu í Borgarfirði.

Erpsstaðir
Rjómabúið Erpsstaðir í Dölum er sveitabær sem öll börn vilja stoppa á. Þar eru framleiddar vörur beint frá býlinu t.d. Ís sem er svo góður að hann er kallaður kjaftæði. Einnig er hægt að fá Skyrkonfekt og ýmsa osta. Gaman er að skoða dýrin á bænum og ná sér í smá fjósalykt áður en haldið er áfram.

Garðalundur
Á Akranesi er að finna skemmtilegan skógarlund sem gaman er að njóta útiveru í. Þar eru ýmis leiktæki t.d. strandblaksvöllur, rennibrautir, frispígolf, og margt fleira. Hægt er að grilla í Garðalundi það þarf bara að taka með sér kolin og passa að ganga vel um.

Háafell
Geitfjarsetur Íslands er staðsett í hvítársíðu á bænum Háafelli. Þangað er gaman að koma, kynnast íslensku geitinni og eiginleikum hennar. Þar eru meðal annars Hollywood stjörnur, en nokkrar geitur léku í þáttunum Game of thrones. Það er gaman að sjá unga sem aldna gleyma sér við að klappa geitunum.

Hestaferðir
Vesturland hefur uppá að bjóða skemmtilegar reiðleiðir og því upplagt að koma með fjölskylduna og fara í hestaferð. Á Vesturlandi eru þó nokkrar hestaleigur sem gera útá stuttar ferðir eða lengri ferðir.

Sögubærinn
Í Borgarnesi eru fjögur söfn Edduveröld, Landnámssetrið, Safnahús Borgarfjarðar og Samgöngusafnið. Edduveröld og Landnámssetrið bjóða uppá sérstaka barna leiðsögn um sýningar sýnar. Edduveröld er sýning um goðaheima en á Landnámssetrinu eru tvær sýningar um Landnám Íslands og Egil Skallagrímsson.

Langisandur
Á Akranesi er strönd með hvítum sandi kallast hún Langisandur. Gaman er að leika sér á ströndinni og í góðu veðri er gaman að busla í sjónum. Búið er að koma upp sturtu á landasandi sem hægt er að skola af sér saltið. Langisandur er Bláfánaströnd til marks um hreinleika og heilnæmi náttúru og umhverfis.

Tröllaganga í Fossatúni
Við bakka Grímsár er bærinn Fossatún þar er ýmsa afþreyingu að finna og ein af þeim er Tröllaganga. Þar er gaman að ganga um í fallegri náttúru á leiðinni eru nokkur tröll sem gaman er að taka mynd af sér með við hvert tröll er saga sem skrifuð er af Steinari Berg staðarhaldara á Fossatúni. Einnig eru fallegir fossar í grímsá sem kallaðir eru Tröllafossar. 

Saga og Jökull
Saga og Jökull er skemmtilegt app sem hægt er að hlaða niður í símann. Á níu stöðum á Vesturlandi er börnum og fjölskyldum boðið upp á alls kyns ævintýri með tveimur skemmtilegum  persónum, þeim Sögu og Jökli. Saga er níu ára stelpa, sem ferðast mikið um landið með foreldrum sínum. Eitt sinn þegar þau voru á ferðalagi, birtist allt í einu álfastrákurinn Jökull og síðan hafa þau tvö lent í ýmsum ævintýrum saman víðsvegar um Vesturland.

Sigling
Mikið ævintýri getur verið fyrir börn að fara í siglingu og eru nokkur fyrirtæki sem hægt er að fara með. Ýmislegt fróðlegt er að sjá út á sjó,hvali og höfrunga ýmsar eyjar og sker. Oft getur verið kalt út á sjó þótt gott veður sé í landi, því er nauðsynlegt að klæða sig vel.  

Gönguferðir

Að ganga, með eða án leiðsagnar, er sívinsæll ferðamáti og gönguleiðirnar
óþrjótandi.

Vesturland

Þéttbýli
Þéttbýlisstaðirnir á Vesturlandi eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Alls eru 10 staðir með fleiri en 50 íbúa og er Akranes fjölmennasti þéttbýliskjarninn með rúmlega 6.600 íbúa.

Öll stærri bæjarfélögin leggja æ ríkari áherslu á öfluga ferðaþjónustu þar sem fjölbreytt afþreying og þjónusta er í boði. 

Bæir og þorp

Map Hellissandur, Rif Grundarfjörður Stykkishólmur Búðardalur Dalir Arnarstapi Hellnar Snæfellsnes Bifröst Húsafell Reykholt Borgarfjörður Hvanneyri Borgarnes Hvalfjörður Akranes Ólafsvík Bjarteyjarsandur