Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hvað má og hvað má ekki - nýr leiðarvísir fyrir gesti sem koma með skemmtiferðaskipum í höfn á Akranesi

Staðbundnir leiðarvísar veita gestum skemmtiferðaskipa hjálpleg tilmæli áður en komið er í höfn á hverjum stað. Þeir innihalda ábendingar um hvert sé best að fara og ráð um hvernig eigi að vera tillitsamur gestur. Meðal annars hvetur leiðarvísirinn gesti til að njóta bæjarins og landslagsins, en láta gróður, dýr og menningararf ósnortna. Leiðarvísirinn bendir einnig á markverða staði og gönguleiðir.
Drónamynd af Akranesi
Drónamynd af Akranesi

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur Áfanga- og markaðssvið SSV, ásamt Akraneskaupstað og Faxaflóahöfnum, tekið þátt í samstarfsverkefni um gæði í móttöku á skemmtiferðaskipum á Akranesi. Þetta er NORA verkefni sem kom í gegn um Ferðamálastofu og er samstarfsverkefni við The Association of Arctic Expedition Cruise Operators (AECO), þar sem þeir hafa unnið með nokkrum höfnum á Íslandi, Noregi, Færeyjum og Grænlandi. Verkefnið gengur út á að heimamenn, þar sem skemmtiferðaskip koma í höfn, leggja línurnar og móta stefnu um hvernig þeir vilja taka á móti farþegum skemmtiferðaskipa sem heimsækja svæðið, þannig að gestirnir njóti heimsóknarinnar og samfélagið njóti ávinnings af gestamóttökunni. 

AECO aðstoðaði við skipulagningu á vinnustofum um staðbundna leiðarvísa (e. Community Specific Guidelines), í mars og apríl, á vestur-, norður- og s-austurlandi. Samtals fimm vinnustofur voru haldnar og skipulagðar á Akranesi, Húsavík, Djúpavogi, Hrísey og Grímsey. Tilgangur vinnustofanna var að setja ferðaþjónustuna á dagskrá og þróa leiðarvísa með staðbundnum leiðbeiningum, upplýsingum og ráðleggingum fyrir gesti. Fyrsti, og hingað til eini, staðbundni leiðarvísirinn var þróaður af bæjarbúum á Seyðisfirði árið 2019. 

Staðbundnir leiðarvísar eru verkfæri sem þróað var árið 2017 af Cruise Iceland, Visit Greenland, Visit Svalbard, The Northen Norway Tourist board og AECO með fjármagni frá Norræna Atlantssamstarfinu (NORA). Sem liður í þróun almennra leiðbeininga, var búið til skapalón að leiðarvísum – og fyrsti staðbundni leiðarvísirinn þróaður á Svalbarða árið 2018. Að undirbúningsvinnunni lokinni var hafist handa við að þróa staðbundna leiðarvísa á fleiri stöðum, en í allt urðu til 12 staðbundnir leiðarvísar árið 2018 og 2019.

Hvernig á að vera tillitsamur gestur

Staðbundinn leiðarvísir veitir gestum hjálpleg tilmæli áður en komið er á hvern stað. Hann inniheldur ábendingar um hvert sé best að fara og ráð um hvernig eigi að vera tillitsamur gestur. Meðal annars hvetur leiðarvísirinn gesti til að njóta bæjarins og landslagsins, en láta gróður, dýr og menningararf ósnortna. Gestum er bent á að um að biðja um leyfi áður en þeir taka myndir af bæjarbúum, til þess að forðast að rjúfa friðhelgi þeirra. Leiðarvísirinn bendir einnig á markverða staði og gönguleiðir. 

Eignarhald bæjarbúa er lykilatriði

Allir þeir leiðarvísar sem búnir voru til á Íslandi, voru gerðar af bæjarbúum, eftir skapalóni og með aðstoð frá samtökum leiðangursskipa á norðurslóðum (AECO).

Ilja Leo Lang, Verkefnastjóri samfélagsþátttöku hjá AECO, sem hefur unnið að gerð leiðarvísanna segir að „framtak og þátttaka bæjarbúa við gerð leiðarvísanna er lykillinn að velgengni. Það hefur verið hreint ótrúlegt að vera vitni að vinnusemi bæjarbúa í þessu ferli. Ef ég hef lært eitthvað af þátttökunni í hinum mörgu vinnustofum þá er það mikilvægi þess að koma fólki saman og skapa rými til þess að ræða ferðaþjónustu, hvað má og hvað má ekki – og að sjá hvernig slíkar umræður skapa betri skilning, meiri þátttöku og eignarhald.“

AECO hefur innleitt margar leiðbeiningar, staðla og verkfæri til þess að tryggja umhverfisvænar, öruggar og tillitssamar leiðangurssiglingar á Íslandi. Þar má nefna rakningu skipa, mat á starfsfólki um borð og eftirlit, auk þess að þróa staðbundna leiðarvísa á Svalbarða, Grænlandi, Kanada og Noregi. Það er frábært að sjá fleiri bæjarfélög á Íslandi taka þetta verkfæri í notkun og gera að sínu. Það er einnig mikilvægt að nefna að öll þau bæjarfélög sem þróað hafa leiðarvísa hafa ákveðið að þeir séu ekki aðeins fyrir gesti á skemmtiferðaskipum, heldur fyrir allt það ferðafólk sem heimsækir bæinn.

Hér má finna staðbundinn leiðarvísi fyrir gesti sem koma í höfn á Akranesi: Akranes Community Guidelines

Alla staðbundna leiðarvísa og aðrar leiðbeiningar má finna á heimasíðu AECO.