Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Sýningaropnun: Útverðir-Elín Elísabet Einarsdóttir

í dag
Verið velkomin á opnun sýningarinnar Útverðir eftir Elínu Elísabetu Einarsdóttur, þann 8. nóvember milli 15:00 og 17:00. Á opnuninni gefur Elín einnig út samnefnda ljóðbók í 100 tölusettum eintökum.
Sýningin er styrkt af Myndstefi og stendur til 6. desember.
Elín Elísabet Einarsdóttir's solo exhibition, Outposts, opens in the Borgarnes Museum on November 8th at 3-5 PM. At the opening Elín also publishes a poetry book of the same name in an edition of 100 riso printed and hand sewed copies.
The exhibition is partially funded by Myndstef and will be open until December 6th.
---
“Til hvers er verið að gera mynd sem á að vera eins og náttúran, þegar allir vita að slíkt er hið eina sem mynd getur ekki verið og á ekki að vera og má ekki vera.”
– Halldór Laxness, Atómstöðin
Elín Elísabet er portrettmálari – ekki síst þegar hún teiknar landslag, ekki síst þegar hún málar landslag, og þegar hún málar einn stað, málar hún í raun tvo staði, tvær manneskjur, og sögu beggja.
Eins og mörg okkar sinnir Elín Elísabet því ómögulega hlutverki að skjalfesta sögu fjölskyldunnar, eða a.m.k. gefa henni gaum, að axla þær sögur sem erfast milli kynslóða. Þetta er abstrakt ábyrgð - það er engin ákveðin byrjun og endirinn fjarlægist sífellt. Henni er ekki úthlutað, heldur verður hún til þegar horfst er í augu við fortíðina. Sumir geta hundsað þessa þörf, aðrir ekki - í öllu falli er hún eilífðarverkefni.
Elín varði sumrinu á tveimur afskekktum sveitabæjum og gerði tilraun til að varðveita hugsun, til að muna eitthvað sem hún vissi ekki endilega fyrir, arf úr sögum, frá ættingjum, úr minningum einstaklinga eða heilla ætta. Hún málar utandyra; í Kollsvík, útvík á Vestfjörðum þar sem afi hennar fæddist, og á Syðra-Lóni á Langanesi, þaðan sem amma hennar var. Hún klöngrast um landslagið í leit samhljómi, velur hvað skal skrásetja, hvað skal muna, hvað skal einblína á, þar til veðrið versnaði. Hún er náin landslaginu - ekki beint hluti af náttúrunni, en þegar maður dvelur svona lengi á einum stað byrja fuglarnir að hundsa mann, tófa gæti gleymt sér. Pastellitir klóra yfir grófgrunnaðar plötur, það skröltir í einhverju í nestisboxinu og hljóðin renna saman við handahófskenndan hljóðheim umhverfisins.
Málverkin sýnir Elín svo í Borgarnesi, þar sem afi hennar og amma, Páll Guðbjartsson og Herdís Guðmundsdóttir, kynntust og vörðu lífinu saman. Innan um liti og áferðir leynast ljóðbrot, skorin úr hvítum pappír; tillögur að titlum, tillögur að hugsunum sem líða hjá á meðan hún rifjar smám saman upp. Nærmyndir af landslagi, eins og portrett eða fjölskyldumyndir, landslag þar sem engan sjóndeildarhring er að finna, bara mosa og fléttur, steina og gras, plöntur sem hún lærði um í bíltúrum með afa sínum, og hið ómálaða, það sem er málað með því að mála það ekki.
Hvernig er svosem hægt að muna allt?
Sýningartexti eftir Joe Keys, þýð. Elín Elísabet
 

GPS punktar

N64° 31' 56.256" W21° 54' 12.902"