Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ferðaþjónusta á Vesturlandi á fljúgandi ferð

Ferðaþjónustan á Vesturlandi blómstrar og skráðar gistinætur hafa tekið stórt stökk upp á við á síðustu mánuðum.

Samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands hefur verið mikil fjölgun í skráðum gistinóttum frá því í apríl en mesta aukningin á milli ára var á Vesturlandi í maí og júní

Í maí og júní mældist langmesti vöxturinn á landsvísu einmitt á Vesturlandi, en aukning í skráðum gistinóttum á hótelum hér nam yfir 30% milli áranna 2024 og 2025. Í júlí hélt þessi jákvæða þróun áfram og fjölgaði gistinóttum á hótelum um tæp 17% frá sama mánuði í fyrra. En á þessum tíma hefur framboð gistieininga á Vesturlandi einnig aukist, sem sýnir að fleiri fyrirtæki og heimamenn sjá tækifæri í ferðaþjónustu og að svæðið er betur í stakk búið til að mæta vaxandi eftirspurn. En herbergjanýting hótela á Vesturlandi hefur líka hækkað á þessu tímabili, sem bendir til þess að ferðaþjónusta á Vesturland sé í góðum vexti.

Þessi þróun er mjög jákvæð og mikilvæg fyrir svæðið allt, því ferðaþjónustan er ein af burðarstoðum atvinnulífs á Vesturlandi. Fleiri gistinætur og fjölbreyttara framboð gistingar þýða líka fleiri tækifæri fyrir annan atvinnurekstur, sem skapar fjölbreyttara framboð af upplifun og þjónustu, auknar tekjur til samfélagsins og ekki síst meiri sýnileika, kynningu og umfjöllun um svæðið sem eftirsóknarverðan áfangastað.

Það er því ástæða til að fagna þessum árangri, hvetja fólk til dáða að halda áfram að byggja upp fjölbreytta ferðaþjónustu sem gerir Vesturland að eftirsóttum áfangastað fyrir gesti hvaðanæva úr heiminum til að koma, dvelja og njóta.

Krækja: Minnisblað um fjölgun gistinátta á Vesturlandi 2025