Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkir þrjú verkefni á Vesturlandi
Verkefni á Vesturlandi
Þrjú verkefni á starfssvæði Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands fengu styrk, en öll eru þau hluti af áfangastaðaáætlun svæðisins:
Eiríksstaðir – History Up Close ehf.
Styrkur að upphæð 7.600.000 kr. fer í endurnýjun upplýsingaskilta og bætta aðstöðu fyrir hreyfihamlaða á Eiríksstöðum í Haukadal. Mikilvægustu staðir svæðisins verða aðgengilegir hjólastólanotendum og sjálfstæði fatlaðra aukið. Verkefnið stuðlar að bættu aðgengi og miðlun menningararfs.
Glymur – Hvalfjarðarsveit
Styrkur að upphæð 16.800.000 kr. rennur til uppbyggingar gönguleiðarinnar að Glym með nýjum stígum, þrepum og merkingum ásamt viðhaldi vegna ágangs og veðurs. Áhersla er lögð á náttúruleg efni og verndun viðkvæmrar náttúru á þessu vinsæla svæði.
Þórufoss – Kjósarhreppur
Styrkur að upphæð 2.200.000 kr. fer í hönnun stíga og útsýnispalls við Þórufoss sem er sífellt vinsælli áningarstaður ferðamanna. Verkefnið miðar að bættu öryggi og aðgengi á stað sem hefur ekki áður hlotið formlega uppbyggingu.
Mikil eftirspurn – takmarkað fjármagn
Alls bárust 96 umsóknir í sjóðinn að þessu sinni, með styrkbeiðnir að fjárhæð rúmlega 2,2 milljarða króna, en einungis 28 verkefni fengu styrk. Við mat og úthlutun styrkja var einkum horft til gæða verkefna, tengsla við áfangastaðaáætlanir og stuðnings við dreifingu ferðafólks á fáfarnari svæði.
Til að tryggja áframhaldandi þróun og sjálfbærni ferðaþjónustu er mikilvægt að styrkja hlutverk Framkvæmdasjóðsins, auka fjármagn til innviðauppbyggingar eða tryggja frekari fjármögnun með öðrum leiðum. Á þann hátt verður unnt að mæta sívaxandi þörf fyrir öryggi, aðgengi og verndun náttúru og menningarverðmæta um allt land.