Opnað fyrir umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða 2026
Mikilvægur sjóður fyrir uppbyggingu
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur með veittum styrkjum haft veruleg áhrif á uppbyggingu ferðamannastaða um land allt, þar á meðal á Vesturlandi.
Með stuðningi sjóðsins hefur víða tekist að bæta aðstöðu, efla öryggi ferðamanna, vernda verðmæt náttúrusvæði og auðga upplifun gesta sem sækja staðina heim.
Hvetjum til vandaðra umsókna frá Vesturlandi
Framkvæmdasjóðurinn er samkeppnissjóður, þar sem verkefni eru valin út frá gæðum umsókna og mati úthlutunarnefndar og ráðherra. Því er mikilvægt að mörg góð verkefni og vel unnar umsóknir frá Vesturlandi verði sendar inn.
Metnaðarfullar og vandaðar umsóknir auka líkurnar á því að styrkir komi inn í landshlutann og stuðli þannig að áframhaldandi uppbyggingu innviða, bættu aðgengi, náttúruvernd og öryggi á áfangastöðum og þar með ánægjulegri upplifun á Vesturlandi.
Áhersla á öryggi ferðamanna
Í úthlutun Framkvæmdasjóðsins fyrir árið 2026 verður lögð sérstök áhersla á framkvæmdir sem stuðla að bættu öryggi ferðamanna.
Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér gæðamatsblað og eyðublað fyrir áhættumat framkvæmda og fara vel eftir gefnum ráðleggingum á upplýsingasíðu sjóðsins áður en umsókn er send inn.
Ráðgjöf og tenging við áfangastaðaáætlun
Starfsfólk Markaðsstofu Vesturlands - Áfangastaðastofu – getur veitt ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð umsókna í sjóðinn fyrir verkefni á Vesturlandi.
Mikilvægt er að öll verkefni sem sótt er um í landshlutanum séu skráð í Áfangastaðaáætlun Vesturlands.
Við hvetjum umsækjendur til að hafa samband ef þeir vilja fá aðstoð eða ráðgjöf varðandi skráningu verkefna í Áfangastaðaáætlun eða vegna umsóknavinnu fyrir Framkvæmdasjóðinn.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki fyrir árið 2026. Umsóknarfresturinn er til kl. 13:00 þriðjudaginn 4. nóvember 2025.
Sjá nánari upplýsingar í frétt á vef Ferðamálastofu: Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum fyrir árið 2026. https://www.ferdamalastofa.is/is/um-ferdamalastofu/frettir/framkvaemdasjodur-ferdamannastada-auglysir-eftir-umsoknum-um-styrki-fyrir-arid-2026