Upplýsingakort Vesturlands (Borðkort)
Kynning á upplýsingakorti Markaðsstofu Vesturlands „Visit West Iceland“
Upplýsingakort Markaðsstofu Vesturlands „Visit West Iceland“ er einfalt, aðgengilegt kort sem ætlað er til að kynna áfangastaðinn Vesturland.
Markmið kortsins
Kortið er hugsað sem „kveikja“ – til að vekja áhuga ferðafólks og hvetja fólk til að dvelja lengur, upplifa og njóta á Vesturlandi. Kortinu er ætlað að ýta undir að gestir ferðist hægt, skoði fallega náttúru, nýti áningarstaði, kaupi vörur og þjónustu og njóti menningar og upplifana í landshlutanum.
Kortið er ekki ætlað sem nákvæmt ferðakort heldur frekar sem stoðtæki við upplýsingagjöf, til leiðbeiningar og til að kveikja áhuga gesta á að afla sér frekari upplýsinga – sjá og skoða meira.
Uppsetning kortsins
FRAMHLIÐ:
Á framhlið kortsins má sjá þann part af Íslandi sem skilgreindur er sem „Vesturland“. Þar eru merktir helstu vegir og vegnúmer, þéttbýli, nöfn á hæstu fjöllum, stærstu vötnum, nokkrum þekktum stöðum og helstu seglum Vesturlands.
Þar eru líka sett inn númer fyrir alla ferðaþjónustuaðila sem eru með starfsstöð á Vesturlandi og eru samstarfsaðilar Markaðsstofu Vesturlands. Þessi númer eru staðsett á kortinu samkvæmt GPS-punktum.
Á framhliðinni eru líka litlar ljósmyndir til að kveikja áhuga gesta og gefa sýnishorn af því hvað hægt er að sjá og upplifa á Vesturlandi.
- Myndirnar eru allar teknar á Vesturlandi og vísa til áhugaverðra staða og upplifana, en eru án tilgreindrar staðsetningar eða merkinga, og eru ekki settar inn á kortið með tengingu við staðinn sem myndin tilheyrir.
- Myndirnar er hugsaðar til að vekja athygli á fjölbreyttum möguleikum á upplifun á Vesturlandi, en staðkunnugir geta einnig nýtt þessar myndir til að leiðsegja fólki.
BAKHLIÐ:
Á bakhlið kortsins eru samstarfsaðilar Markaðsstofu Vesturlands listaðir upp og raðað eftir ferðasvæðum og/eða þéttbýliskjörnum. Þar kemur fram:
- Númerið sem vísar í framhlið kortsins og sýnir staðsetningu á kortinu
- Nafn þjónustustaðarins/aðilans, símanúmer og veffang
- Viðeigandi þjónustumerki við hvern stað
Á bakhliðinni eru einnig upplýsingar um ferðaþjónustuaðila sem starfa á svæðinu og eru samstarfsaðilar Markaðsstofu Vesturlands, en eru ekki með fasta starfsstöð á Vesturlandi.
Þar eru líka nokkrir QR-kóðar sem veita aðgang að ýmsum upplýsingaveitum og heimasíðum sem tengjast áfangastaðnum og fleira sem gott er að vita á ferðalagi um Vesturland.
Ábendingar fyrir ferðaþjónustuaðila um notkun á kortinu
- Nota kortið sem „kveikju“ til að vekja athygli á áhugaverðum stöðum og upplifun á Vesturlandi – til að veita upplýsingar og sem stuðning við upplýsingagjöf, leiðsögn og leiðbeiningar til gesta.
- Nota kortið til að vísa gestum á aðra ferðaþjónustuaðila, vörur og þjónustu á Vesturlandi með aðstoð númera og þjónustumerkja á bakhlið.
- Hvetja gesti til að ferðast um allt Vesturland, njóta alls þess sem þar er að sjá og skoða, nýta sér fjölbreytta þjónustu – upplifa, dvelja og njóta á Vesturlandi.
- Tryggja það að ferðaþjónustan þín sé merkt inn á kortið – með því að vera samstarfsaðili Markaðsstofu Vesturland 😉
Smelltu á myndirnar til að opna/stækka og/eða hlaða niður prentvænni útgáfu.